138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

vopnaleit á Keflavíkurflugvelli.

221. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Það er stutt síðan ég fór til útlanda og þurfti að gangast undir vopnaleit. Þegar ég stóð í röðinni á flugvellinum hugsaði ég að ef það væri eitthvað sem Osama bin Laden gæti verið stoltur af væri það hvernig brugðist hefur verið við á flugvöllum og hversu mikið vopnaleit hefur verið hert.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að spyrja sérstaklega um vopnaleit á flugvöllum á Íslandi er sú að samkvæmt fréttum frá því í nóvember á síðasta ári virðist ekki vera algerlega á hreinu hjá Flugmálastjórn Íslands og þeim sem hafa með vopnaleit að gera hverjir eru undanþegnir öryggisleit í Leifsstöð svo ég ákvað að spyrja hæstv. ráðherra þannig að ef menn væru ekki alveg vissir þá væri hægt að skýra þetta í ræðustól Alþingis.

1. Hvaða einstaklingar, innlendir og erlendir, eru undanþegnir vopnaleit á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum? Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að í Fréttablaðinu þann 17. nóvember er tilgreint að samkvæmt Flugmálastjórn ættu aðeins forsetinn, forsætisráðherra og makar þeirra auk erlendra þjóðhöfðingja sem eru í opinberri heimsókn og sérstaklega er tilkynnt um frá utanríkisráðuneytinu að vera undanþegnir vopnaleit. Svo virðist vera að hæstv. forseti okkar, þ.e. forseti Alþingis, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sé þar með ekki undanþegin vopnaleit og beri að hlíta skipunum lögreglumanna á svæðinu en hjá Friðþóri Eydal, fulltrúa á Keflavíkurflugvelli ohf. kemur fram að líka sé undanþága fyrir tollverði og lögreglumenn þannig að menn voru ekki alveg samkvæmir sjálfum sér í svörum.

2. Hvaða rök eru fyrir þeim undanþágum í hverju tilviki fyrir sig?

3. Hver eru viðbrögð vopnaleitarmanna ef einstaklingur, sem ekki hefur undanþágu frá vopnaleit, neitar að gangast undir vopnaleit?

Ef ráðherrann skyldi svo hafa svör við því, þótt það komi ekki fram þarna, af hverju setja þarf allan vökva undir 100 millilítrum í plastpoka sem á að renna með lás, þá hef ég hvergi séð rök fyrir því í gögnum. Þetta er bara fyrir forvitnis sakir ef ráðherrann skyldi vita svörin við þessu. Ég er nokkuð viss um að flestir flugfarþegar hafa undrast af hverju það þarf að vera hægt að loka plastpokunum með rennilás, því þar af leiðandi er mjög auðvelt að opna þá aftur.