138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[14:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Í pólitík geta menn verið sammála um markmið en greint á um leiðir. Við sjálfstæðismenn teljum og höfum alltaf talið mikilvægt að atvinnulífinu sé búinn slíkur jarðvegur að það geti blómstrað. Við ríkjandi aðstæður skiptir meginmáli að okkar mati að halda atvinnulífinu gangandi, skapa atvinnu og afla tekna. Hvers kyns verkefni á vettvangi samgangna eru til þess kjörin vegna þess að ef vel er að verki staðið geta þau skapað fjölda smærri og meðalstórra fyrirtækja atvinnu og komið í veg fyrir gjaldþrot margra þeirra. Mér virðist hins vegar, frú forseti, sem ríkisstjórnin sé annarrar skoðunar og leiti frekar leiða til að efla Atvinnuleysistryggingasjóð en atvinnulífið.

Frú forseti. Leiðarljós samgönguráðuneytis í vegamálum eru greiðar, öruggar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur. Markmið Vegagerðarinnar er að þróa og sjá um vegakerfi á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi. Ljóst er að þetta tvennt fer saman. Þegar rýnt er í tölur Vegagerðarinnar frá árunum 2007–2010, og skiptir þá engu hver samgönguráðherra var á þeim tíma eða er, kemur glögglega í ljós hvernig skiptingu vegafjár er háttað eftir kjördæmum. Þar hallar verulega á Suðvesturkjördæmi og höfuðborgarsvæðið allt. Ég velti hins vegar fyrir mér, frú forseti, hvort fjármunum úr ríkissjóði til vegamála sé varið í samræmi við leiðarljós ráðuneytis og markmið Vegagerðarinnar. Ég tel að vert sé að skoða hvort svo sé og þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Ég spyr hann: Hve mörg verk voru boðin út af Vegagerðinni á árinu 2008 og hvernig skiptust þau á milli landshluta, milli 2008 og 2009? Hve mörg verk eða útboð voru á þessum árum slegin af og hvernig skiptust þau á milli landshluta?