138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:03]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið á síðustu mínútum um mikilvægi vegasamgangna og frekari framkvæmdir á því sviði. Það er trú mín og vissa að mjög mikilvægt sé að framkvæmdir á þessu sviði séu sem víðast og fyrir sem flesta á komandi árum. Atvinnuleysi er ömurlegt í okkar samfélagi nú um stundir og því er mjög mikilvægt að þessar framkvæmdir verði sem víðast og fyrir sem flesta.

Ég vil líka geta þess, frú forseti, að það er ekki einungis hægt að horfa til svæðaskiptingar í þessu efni og horfa á þau svæði þar sem flestir búa, umferðarmál snúast líka um mannréttindi, um að ferðast um örugga vegi. Það er hreint með ólíkindum hve sumir íbúar landsins þurfa að aka um stórhættulega og ónýta vegi meginhluta ársins á meðan aðrir hugsa um það eitt að komast hraðar á milli.