138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls. Ég get tekið undir með þeim flestum að samgöngur skipta máli í þessu landi, hvort heldur er í þéttbýli eða í dreifbýli. Ég get líka tekið undir með hv. 1. þm. Suðurkjördæmis að það yrði afar dapurt ef stórt bæjarfélag á suðvesturhorninu kæmi með einhverjum hætti í veg fyrir að framkvæmdir við Suðurlandsveg gætu hafist eða verkið farið í útboð.

Mig langar að biðja hæstv. samgönguráðherra að útskýra nánar fyrir mér og þingheimi öllum hvar þeir 11,5 milljarðar sem fara eiga í samgöngumannvirki á árinu 2010 liggja og hvernig þeir skiptast á milli landshluta.

Ég ítreka enn það sem ég sagði áðan, frú forseti, að það verður að ætlast til þess í þessum málaflokki eins og öðrum þegar staðið er frammi fyrir óhjákvæmilegum niðurskurði á fjármunum til opinberra framkvæmda, að fyrst og síðast verði horft til hagkvæmni verkefna, arðsemi þeirra, öryggissjónarmiða og loks mögulegrar atvinnusköpunar þar sem hennar er kannski mest þörf.

Ég get líka tekið undir það að það skiptir máli í því árferði sem við búum við hér og nú að verkefnin dreifist um landið en það má ekki verða á kostnað stærri framkvæmda þar sem hagkvæmnissjónarmið eiga að ráða för.

Ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra um 11,5 milljarðana, hvernig þeir skiptast á milli landshluta eða hvernig þeir skiptast á verkefni. Þetta er ekki kjördæmapot af minni hálfu, hæstv. samgönguráðherra, heldur er einföld fyrirspurn um þetta vegna þess að mannvirkjageirinn hefur farið ákaflega illa út úr ríkjandi ástandi, þar er ekki bjart fram undan og (Forseti hringir.) gefa þarf von í þeim málaflokki.