138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

lögregluréttur.

207. mál
[15:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Á vettvangi lögmannastéttar og í dómskerfinu og meðal fræðimanna hefur löngum verið um það rætt hvort ástæða sé til að bæta við þriðja dómstiginu á Íslandi. Sú umræða hefur jafnframt snúist um það hvort æskilegt sé að bæta við jafnvel stjórnskipunardómstigi, þ.e. að Hæstiréttur hefði þá það hlutverk að dæma einungis í málum er varða stjórnarskrá en millidómstig yrði sett á til að auka réttaröryggi í landinu. Þær umræður eða þær pælingar hafa verið svona á fræðimannastigi, umræðustigi, en það hefur einnig stundum komið til tals hvort hægt sé að bæta réttarkerfið þannig að minni brot gangi hraðar í gegnum kerfið. Það er rót þeirrar fyrirspurnar sem ég vildi bera nú til hæstv. dómsmálaráðherra.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort farið hafi fram athugun í ráðuneytinu á því hvort hægt væri að létta á dómskerfinu með því að taka þau mál sem eru minni í sniðum einhvern veginn út fyrir sviga og afgreiða þau á fyrri stigum mála.

Nú er það ekkert launungarmál að vaxandi álag er á dómskerfinu á Íslandi vegna þess hruns sem hér varð, gríðarlega flókin álitamál eiga eftir að leita til dómstólanna og það er ástæða til þess fyrir hæstv. dómsmálaráðherra, að mínu mati, að reyna þá á sama tíma að leita leiða til að létta á álaginu þegar um er að ræða brot sem t.d. liggur játning fyrir um. Við getum hugsað okkur alls konar minni brot, innbrot, slíka hluti, smápústra og mál af þeim toga. Þetta fyrirkomulag þekkist erlendis, það er mjög þekkt t.d. í Bretlandi og lögregluréttur er eiginlega bein þýðing á því fyrirbæri sem þar er. Þetta nafn sem ég valdi á fyrirspurnina er náttúrlega bara valið af handahófi vegna þess að við erum ekki komin á það stig að vera búin að velja nöfn á þetta. Mig langar til að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir því hvort þetta hafi verið skoðað eða hvort hæstv. ráðherra sé að reyna að mæta því á öðrum sviðum með öðrum hætti að hægja á álagi í dómskerfinu gagnvart hinum minni háttar brotum.