138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

rannsókn sérstaks saksóknara.

265. mál
[15:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Óhætt er að segja að augu alls almennings á Íslandi beinist nú um stundir að rannsókn á orsökum bankahrunsins sem varð hér á landi fyrir nálega hálfu öðru ári. Ekki er laust við að efasemda gæti hjá mörgum um að sérskipaðir rannsakendur nái utan um viðfangsefni sitt sem er allt í senn, flókið, yfirgripsmikið og vandmeðfarið, svo ekki sé meira sagt. Einkum hangir sú spurning í loftinu hvort meintir sakamenn sem hugsanlega frömdu refsivert athæfi í íslensku viðskiptalífi í aðdraganda hrunsins muni komast undan réttvísinni sem vel að merkja og að gefnu tilefni eru í einhverjum tilvikum þeir sömu aðilar og nú eru aftur að hasla sér völl í viðskiptalífinu hér á landi. Verður möguleg sekt þessara manna auðveldlega sönnuð? Var starfað á gráu svæði, eða svörtu? Nær íslenskur lagarammi utan um marga hæpnustu, vafasömustu og umdeildustu gjörninga þessara manna? Eða falla þeir e.t.v. utan hans?

Ég kem því hér upp, frú forseti, til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra nokkurra spurninga sem varða þetta efni og sem ég tel að almenningur hafi mjög mikinn áhuga á. Og hann hefur rétt á að vita um framvindu mála.

Hvað líður rannsókn sérstaks saksóknara á bankahruninu?

Hversu margir hafa verið yfirheyrðir nú þegar?

Hafa einhverjir þeirra neitað að koma til yfirheyrslu eða færst undan henni?

Hversu margir hafa nú þegar fengið stöðu grunaðra við rannsóknina?

Til hvaða landa hefur rannsóknin náð?

Að síðustu: Hvenær er áætlað að rannsókninni ljúki?

Margs er hægt að spyrja í þessu efni og er þessi listi vissulega ekki tæmandi. Það er að mínu viti afskaplega mikilvægt nú um stundir að almenningur geti fylgst með framvindu mála í þessari mjög svo mikilvægu rannsókn sem lýtur að einhverjum stærstu tíðindum í íslensku efnahagslífi á síðustu áratugum, ef ekki allri okkar lýðveldissögu. Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að hér verði einhverju haldið leyndu, að svo miklu leyti sem eðlilegt er að það verði upplýst hér og nú fyrir almenning. Þess vegna fer ég þess á leit við hæstv. dómsmálaráðherra að hún greini okkur, almenningi í landinu, frá því hvernig þessari rannsókn er háttað og hvernig henni miðar í tölum og öðru.