138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnsýsla ráðherra.

[10:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrirspurnina. Ljóst er að mikilvægt er að skerpa á stöðu mála að því er varðar skipulag sveitarfélaga og þá sérstaklega að því er varðar úthlutunarreglur Skipulagssjóðs þannig að sveitarfélögin standi öruggar en þau hafa áður gert. Það gilda í raun engar opinberar starfsreglur um úthlutunarreglur Skipulagssjóðs en ég hef óskað eftir því að það verði sérstaklega kannað að því er varðar ný skipulags- og byggingarlög sem hafa nú þegar farið í gegnum ríkisstjórn og verður væntanlega mælt fyrir hér fyrr en síðar.

Að því er varðar samning Sveitarfélagsins Ölfuss við Orkuveituna á sínum tíma hefur það ekki komið til minna kasta, hvorki í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur né sem umhverfisráðherra, að taka afstöðu til þess. Hins vegar er alveg ljóst og alveg rétt sem þingmaðurinn bendir á að sú ákvörðun sem tekin var um skipulag við Þjórsá gefur tilefni til að ætla að hlutirnir séu komnir á nýjan stað, ef svo má segja, að því er varðar þær forsendur sem umhverfisráðherra gefur sér til að taka afstöðu til fyrirliggjandi breytinga eða nýrra aðalskipulaga. Til þess mun umhverfisráðherra taka málefnalega afstöðu á grundvelli raka og þeirra gagna sem fyrir liggja hverju sinni. Það gildir um Norðausturland eins og önnur landsvæði.