138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnsýsla ráðherra.

[10:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er greinilega ekki sama hvort borgarfulltrúinn Svandís Svavarsdóttir eða hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir talar eða framkvæmir. Sá samningur sem um ræðir vegna Sveitarfélagsins Ölfuss var staðfestur af fyrrverandi umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, og gjaldskrá sveitarfélagsins hefur verið samþykkt og afgreidd af hálfu þáverandi ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Ráðherra svaraði heldur ekki skýrt spurningu minni um það hvort hún mundi beita sömu rökum fyrir norðan og hún gerði gagnvart breytingum við neðri hluta Þjórsár. Ég óska eftir að hún svari því.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er algjörlega óþolandi að sveitarstjórnarmenn skuli þurfa að sitja undir ásökunum um mútuþægni eða annarri slíkri umræðu þegar þessi mál eru rædd. Sveitarstjórnarmenn hafa ekkert annað markmið með vinnu sinni en að efla sveitarfélag sitt og efla (Forseti hringir.) mannlíf á þeim stöðum þar sem þeir búa. Það að þeir þurfi síðan að sitja undir þeim svívirðingum sem hafa fylgt í kjölfarið um mútuþægni og annað slíkt (Forseti hringir.) er algjörlega óþolandi.