138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins árétta að ég sagði ekki að þau úrræði sem gripið hefur verið til hefðu gagnast fáum. Ég taldi hins vegar að það þyrfti sérstaklega að huga að betri úrræðum fyrir þau heimili sem minnstar tekjurnar hafa vegna þess að ég tel að þangað hafi kannski ekki verið litið nógu vel.

Í þessari umræðu langar mig að nefna að útgjöld heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu á Íslandi eru gríðarlega mikil. Við borgum í kringum 17–18% beint úr buddunni í heilbrigðisþjónustuna og það er býsna hátt hlutfall. Það kann að vera að tannlæknakostnaðurinn sem lendir alltaf á heimilunum hér öfugt við það sem er til að mynda á Norðurlöndunum eigi hlut að máli.

Hér er talað um að grípa til aðgerða, við höfum reynt í heilbrigðisráðuneytinu að grípa til aðgerða til að takmarka hækkanir á þessum kostnaði. Ég vek athygli á því að við 5% gjaldskrárhækkun sem var kallað eftir á fjárlögum um síðustu áramót urðu (Forseti hringir.) engar hækkanir í heilsugæslu og það var dregið úr öllum gjöldum sem lögð voru á komur barna í heilbrigðisþjónustuna. Þetta er ákveðin forgangsröðun og (Forseti hringir.) þetta eru aðgerðir sem heilbrigðisráðuneytið getur gripið til og gerir.