138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:46]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Sú sóknaráætlun sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað er góðra gjalda verð, en hún dugar skammt þeim 15.000 einstaklingum sem eru án atvinnu í dag. Ekki borgar áætlunin bensínlítrann sem nú er í hæstu hæðum eða matarkörfuna sem hækkað hefur um 50%, hvað þá íbúðalánin sem nú hækka enn og aftur vegna verðbólgu.

Íslendingar eru duglegir, þeir eru vinnusöm þjóð og vilja atvinnu. Það er löngu orðið tímabært að stjórnvöld greiði fyrir atvinnusköpun og leyfi hugviti og atorku landsmanna að njóta sín. Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiði Ingadóttur út í afstöðu hennar til starfsemi einkaaðila í heilbrigðisþjónustu. Er hún sama sinnis og flokksráð Vinstri grænna sem fordæmdi allan einkarekstur í heilbrigðismálum? Ég verð að segja að þeir fordómar sem koma fram í þeirri ályktun eru ótrúlegir og þá sérstaklega ef hugsað er til þeirra einkaaðila sem nú þegar starfa að heilbrigðismálum. Vil ég nefna Reykjalund og Hrafnistu sem dæmi um farsæla þjónustu og farsæla starfsemi einkaaðila sem flokksráðið fordæmir.

Þessu tengt nefni ég þá starfsemi einkaaðila í heilbrigðisþjónustu sem fyrirhuguð er á vallarsvæðinu en fyrir liggur að afstaða tveggja síðustu heilbrigðisráðherra úr röðum Vinstri grænna hefur tafið það verkefni í tvö ár. Ætlar heilbrigðisráðherra að greiða götu þessa verkefnis og þar með atvinnu fyrir um 300 manns, gjaldeyristekna upp á 3,5 milljarða kr., skatttekna upp á 300 millj. kr., sparnaðar í ríkisútgjöldum upp á 500 millj. kr.? Hver er afstaða hæstv. heilbrigðisráðherra til þessarar atvinnustarfsemi og hvernig mun hæstv. ráðherra beita sér í þessu máli?