138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég nefndi í fyrra svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Höskulds Þórs Þórhallssonar hinn gríðarlega mikla tannlæknakostnað sem íslensk heimili og fjölskyldur þurfa að bera. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að þetta er einkavædd heilbrigðisþjónusta. Þetta er einkavædd heilbrigðisþjónusta heilbrigðisstéttar sem ekki gerir samninga við Tryggingastofnun eða Sjúkratryggingastofnun. Þarna er dæmi sem við eigum að læra af, hv. þm. Erla Ósk, en ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn sem lýtur að afstöðunni til einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu. Það er rétt, ég er henni andsnúin. Ég tel að það kerfi sem við höfum byggt hér upp og búið við með litlum undantekningum á undangengnum árum og áratugum sé til fyrirmyndar. Heilbrigðisþjónustan okkar er mjög góð og ég tel að við þurfum ekki að leita aftur til ársins 2007 til að fara á ný í dekur við einkageirann í þeim efnum.

Ég verð að segja að mér finnst vel í lagt og varla forsvaranlegt að setja 1 milljarð kr. í að gera upp gamlan herspítala uppi á Keflavíkurflugvelli til þess (Gripið fram í.) að búa þar til þrjár nýjar skurðstofur á sama tíma og 5–7 skurðstofur eru á hverjum tíma ónýttar í heilbrigðisþjónustunni okkar, skurðstofur sem hafa verið reistar fyrir íslenskt skattfé og eru illa nýttar. Þá er ég ekki bara að tala um hér á höfuðborgarsvæðinu, á Landspítalanum, heldur einnig norðan heiða, á Akureyri. Það er röng forgangsröðun að mínu viti að setja fjárfestingar í nýjar skurðstofur og ég tel að það muni ekki hjálpa okkur í þeim erfiðleikum sem steðja (Forseti hringir.) nú að íslensku heilbrigðiskerfi.