138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

undirbúningur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

[10:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör eins og við var að búast frá henni. Ég tel það nefnilega skyldu mína sem þingmanns að sjá til þess að framkvæmdarvaldið fari í einu og öllu að gildandi lögum. Þess vegna finnst mér einkennilegur málflutningur ákveðinna ráðherra í ríkisstjórninni eins og hann hefur verið undanfarnar vikur, að tala um að hér verði ekki haldin þjóðaratkvæðagreiðsla.

Því langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé rétt að framkvæmdarvaldið dragi sig nú í hlé og tilkynni Bretum og Hollendingum að ekki verði af frekari viðræðum fyrr en að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Er ekki kominn tími til að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hætti að þverskallast í málinu, framfylgi stjórnarskrárvörðum rétti þjóðarinnar og hætti að þvælast fyrir okkur með þessum málalengingum sem þeir viðhafa? Annars, virðulegi forseti, óska ég þingmönnum og þjóðinni allri til hamingju með það að þjóðaratkvæðagreiðslan fer greinilega fram 6. mars. Við skulum fagna því.