138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun í nauðsynlegum niðurskurði á ríkisútgjöldum gerir það að verkum að stofnun eins og RÚV er gert að skera hlutfallslega meira niður en t.d. heilbrigðisstofnunum og skólum. Forstöðumenn ríkisstofnana glíma við það krefjandi verkefni að gera raunhæfar rekstraráætlanir og nýta takmarkað fjármagn eins vel og unnt er miðað við lögbundin hlutverk hverrar stofnunar.

Endurskipulagning á starfsemi fylgir hagræðingarkröfunum hjá þeim flestum og sú er raunin hjá Ríkisútvarpinu. Eitt af markmiðum hjá RÚV er að tryggja fréttaflutning á landsrásum útvarps, í sjónvarpi og á vefnum með því að minnka fastakostnað eins og hægt er. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og hefur skilgreint hlutverk og skyldur almannaútvarps. Eitt þeirra er að vera farvegur skoðana og hagsmuna allra landsvæða með öflugu upplýsingaflæði svo styrkja megi svæðisbundin einkenni.

Þó að gert sé ráð fyrir því að svæðisbundnar útsendingar verði lagðar af í núverandi mynd koma í staðinn útsendingar frá landsbyggðinni sem allir landsmenn fá að njóta og að því leyti eru breytingarnar jákvæðar. Innan skamms verður mælt fyrir nýju fjölmiðlafrumvarpi og fylgja því væntanlega einnig breytingar á starfsemi RÚV. Niðurskurður á ríkisútgjöldum er nauðsynlegur á meðan við förum í gegnum efnahagslægðina, þess vegna hefur RÚV úr minni fjármunum að spila. Vandinn er tímabundinn. En þó að við séum stödd í djúpri efnahagslægð ætti það ekki að hindra okkur í að hafa skýra sýn fyrir Ríkisútvarpið og skerpa hana, m.a. hvernig tryggja megi enn frekar sjálfstæði RÚV gagnvart stjórnvöldum og markaði, skýra ábyrgð og völd stjórnar RÚV, ákveða hvort setja eigi sérstakt fagráð á laggirnar til ráðgjafar við stefnumótun og hvernig eftirliti með almannaþjónustu og svæðisbundinni þjónustu er háttað, svo eitthvað sé nefnt af því sem rætt hefur verið og skerpa þyrfti á. En á flestum þessara þátta mætti, eins og fram kom hér áðan, taka á í þjónustusamningnum.