138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni Rúv.

[11:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins hafa gegnt gríðarlega miklu hlutverki. Þær hafa breikkað umfjöllunarefni útvarpsins og verið hluti af því að útvarpið standi undir nafni sem ríkisútvarp. Nú er hins vegar verið að veikja svæðisstöðvarnar með boðuðum aðgerðum. Hér eftir verða ávarpsorðin þjóðþekktu vel við hæfi: Útvarp Reykjavík .

Það er rétt að það er ætlunin að sinna málefnum landsbyggðarinnar með sérstökum hætti. En það er ekki nóg, það er ástæða til þess að vekja athygli á því að það kann að vera vafasöm aðferð sem útvarpið hefur valið í þessu sambandi. Það er alveg ljóst mál að sú dagskrárgerð og sú starfsemi sem farið hefur fram á svæðisstöðvunum verður, ef þetta gengur eftir, hvorki fugl né fiskur. Eru menn búnir að gleyma því að fyrir ekki mjög löngu síðan átti að stýra starfsemi Rásar 2 frá Akureyri? Nú eru menn komnir heldur betur langt frá þessu. Svæðisstarfsemin verður ekki svipur hjá sjón og sú virka starfsemi þar sem fréttir eru sagðar af fréttamönnum sem eru staðsettir á staðnum, sem hefur auðgað starfsemi útvarpsins, verða að mestu leyti úr sögunni.

Nú verður staðan sú, eins og stundum er sagt, að fréttirnar af landsbyggðinni verða bundnar við gjaldþrot fyrirtækja, vandræði og náttúruhamfarir. Það gefur ekki þá réttu mynd sem við þurfum að fá í útvarpinu af starfseminni á landsbyggðinni sem einkennist af fjölbreytni og miklum þrótti á mörgum sviðum.

Þá er líka ástæða til þess að efast um að það verði raunverulegur sparnaður af þessum aðgerðum. Svæðisstöðvarnar, eins og hér hefur verið bent á, eru ekki sá stóri kostnaðarliður sem veltir þessu mikla hlassi. Þvert á móti bendir margt til þess að kostnaður við framleiðslu efnis sé síst meiri og jafnvel minni í einstökum tilvikum á svæðisstöðvunum en í höfuðstöðvunum hér í Reykjavík.

Þetta er bara gamla sagan. Þegar skera þarf niður er alltaf byrjað á starfseminni sem er fjærst höfuðstöðvunum. Þetta er líka gamla sagan af því að þegar spara þarf í rekstri fyrirtækja og stofnana er byrjað á því að reka skúringakonuna.