138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér málefni Ríkisútvarpsins ohf. og þá staðreynd að skera þarf niður fjárveitingar til þeirrar stofnunar eins og annarra stofnana sem háðar eru fjárframlögum ríkisins. Sú staðreynd verður ekki umflúin. Efnahagur íslenska ríkisins er með þeim hætti í dag að það er óábyrgt að halda starfsemi stofnana ríkisins áfram í óbreyttri mynd. Ríkisútvarpið þarf eins og aðrar stofnanir í svipuðum sporum að huga að eiginlegu hlutverki sínu og einbeita kröftum sínum í þá átt. Þar má nefna öryggishlutverk, menningarhlutverk og hlutlausa fréttamiðlun fyrir allt landið og af öllu landinu.

Ísland er stórt og dreifbýlt land en í landinu býr ein þjóð sem á að láta sig varða málefni allra landshluta um leið og hún lifir og hrærist í nærumhverfi sínu. Þessu hlutverki hefur RÚV þjónað ágætlega með aðalstöðvum sínum á fjölmennum suðvesturhluta og svæðisstöðvum fjær borginni. Svæðisstöðvarnar hafa verið með svæðisbundnar útsendingar, þáttagerð og fréttaflutning til allra landsmanna á viðkomandi svæði. Það er ósköp þægilegt að taka bara þá ákvörðun að skera niður svæðisstöðvarnar að stærstum hluta og stjórna fréttaflutningi og þáttagerð að mestu leyti frá einum punkti landsins, en er það þannig ríkisútvarp allra landsmanna sem við viljum?

Ég hef fengið að heyra fínar hugmyndir fólks sem hefur unnið hjá RÚV annars staðar en í Efstaleitinu um hvernig má spara, nýta ódýrt vinnuafl og auka tekjur til að halda megi úti svæðisstöðvum og svæðisútsendingum. Ég velti því verulega fyrir mér hvort og hvernig samráð hafi verið haft við starfsfólk RÚV um hvernig mætti spara og hagræða á sem sársaukaminnstan hátt og standa um leið undir nafni sem ríkisútvarp allra Íslendinga. Slíkt þarf ekki að vera of seint. Ákvarðanir eiga ekki alltaf að vera endanlegar, heldur má endurskoða þær ef fyrir því eru haldbær rök.