138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hennar skýru svör og einnig þeim þingmönnum sem hér hafa tekið þátt í umræðunni. Ég merki ekki annað en að það sé mikil andstaða við einmitt það að þessar svæðisútsendingar verði lagðar niður. Það er ágætt að það komi hér fram.

Það er alveg rétt, og við skulum hafa það á hreinu, að það er hagræðingarkrafa hjá Ríkisútvarpinu eins og öllum öðrum stofnunum ríkisins. Hins vegar er krafa á RÚV um að það fyrirtæki sinni sínu lögbundna hlutverki. Ef ákvarðanir útvarpsstjóra og yfirmanna RÚV fara gegn þeim þjónustusamningi sem nú er í gildi, eins og kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, er það grafalvarlegt mál. En ég fagna því að það eigi einmitt að taka rekstrarformið upp og ég fagna því að það eigi einmitt að ræða þennan þjónustusamning sérstaklega, en ég tek samt fram að í þeim viðræðum má alls ekki rýra það mikilvæga hlutverk sem RÚV gegnir.

Ástæðan fyrir því að það er ekki sérstakt svæðisútvarp í Reykjavík er sú að þeir sem þar búa fá í öllum fjölmiðlum iðulega fréttir af því sem þar er að gerast, t.d. af borgarstjórninni í Reykjavík og þeim málefnum sem dynja á öllum landsmönnum. Fréttir af sveitarstjórnum úti um allt land, sem eru ekki síður mikilvægar, rata hins vegar ekki í þessar landsfréttir en eru mjög mikilvægar á þeim svæðum og þess vegna viljum við halda svæðisútsendingunum áfram.

Ég er ánægður með þessa umræðu og þakka fyrir að hún var málefnaleg. Málefni RÚV varða alla þingmenn (Forseti hringir.) og ég vonast til þess að menntamálaráðherra beiti sér (Forseti hringir.) fyrir því að svæðisútsendingarnar verði áfram vegna þess að ef einhver þáttur í rekstri Ríkisútvarpsins er réttlætanlegur (Forseti hringir.) er það þjónusta við þær byggðir sem hafa litla eða vanmáttuga fjölmiðla.