138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

málefni RÚV.

[11:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og þakka umræðuna. Ég tek þó fram út af þeim orðum sem hér hafa fallið um þjónustusamninginn að þar koma auðvitað tveir aðilar saman. Ríkið setur miklar kröfur á Ríkisútvarpið en þar er líka boðað að fjármunir muni fara vaxandi, (Gripið fram í.) já, og það liggur fyrir að fjármunir hafa ekki vaxið í þeim mæli sem gefin eru fyrirheit um í þjónustusamningi þannig að því verður auðvitað að halda til haga fyrir umræðuna. Fjármunir hafa ekki skilað sér eins og þeir áttu að gera en að sama skapi eru settar fram miklar kröfur sem liggur fyrir að þarf sennilega að endurskoða.

Þá komum við kannski að því að við höfum öll skoðanir á Ríkisútvarpinu en viljum samt að fjölmiðillinn sé sjálfstæður og lúti ekki pólitískum vilja. Því skiptir máli hvernig við skilgreinum almannaþjónustuhlutverkið. Hlutverk Ríkisútvarpsins er að sinna því hlutverki. Um það hefur verið deilt í þessum sal. Hér var rætt um Rás 2 sem raunar er sú stoð Ríkisútvarpsins sem stendur undir sér með auglýsingatekjum. Þar hafa menn stundum deilt um hvort það sé almannaþjónusta. Sumir segja það því að enginn stendur sig betur í því, leyfi ég mér að segja, að miðla t.d. nýrri íslenskri tónlist. Það er almannaþjónusta, a.m.k. að mínu mati.

Hér þarf að fara fram ákveðin umræða á milli ráðuneytis, Alþingis og Ríkisútvarps um hvernig við viljum skilgreina betur þetta almannaþjónustuhlutverk sem við ætlumst til að Ríkisútvarpið sinni. Við getum rætt sérstaklega um rekstrarform eins og hv. þingmaður ámálgaði en kannski þurfum við fyrst og fremst að ná sátt um hlutverkið sem við viljum að stofnunin sinni. Eins og ég nefndi áðan eru ýmis rekstrarform þekkt á Norðurlöndum en það sem skiptir líka máli er sjálfstæði fjölmiðilsins í dagskrárstefnu og -gerð, að hann hafi það sjálfstæði um leið og hann uppfyllir þær kröfur sem við setjum um lýðræðisleg vinnubrögð og hann standi vörð um menningu okkar og sinni landinu öllu.

Það er þessi ákveðni rammi sem við getum sett, fjölmiðilllinn sjálfur þarf að hafa sjálfstæði og kannski tengjast (Forseti hringir.) þær áhyggjur sem við höfum líka fjárhagnum. (Forseti hringir.) Eins og staðan er núna er erfitt fyrir almannafjölmiðil að móta sér sjálfstæða stefnu til lengri tíma þegar fjárveitingar (Forseti hringir.) eru jafnóvissar og nú er.