138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[11:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir framsögu hennar á því nefndaráliti sem liggur fyrir. Hér er enn á ný verið að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu og frestun á henni. Þetta frumvarp er svo sem ágætt út af fyrir sig og nauðsynlegt en í nefndarálitinu kemur fram að þau úrræði sem hafa verið lögfest, m.a. reglur um sértæka skuldaaðlögun, eru ekki orðin nægilega virk og jafnvel ekki komin að fullu til framkvæmda. Einnig kemur fram í nefndarálitinu að nauðsynlegt sé að veita gerðarþola á ný heimild til framlengingar svo honum gefist meiri tími til að leita tiltækra úrræða, virkja þau og ná tökum á greiðsluvandræðum sínum. Hvernig getur ríkisstjórnin komið fram með frestun eina ferðina enn án þess að koma með heildstæðar tillögur að úrbótum á skuldamálum heimilanna? Hvernig er hægt að koma með þetta frestunarmál og segja að fólk sé u.þ.b. að ná tökum á greiðsluvandamálum sínum?

Það er með þetta mál eins og fleiri sem þessi ríkisstjórn hefur komið að, vandanum á að fresta, vandanum á að fresta og vandanum á að fresta, þangað til ég veit ekki hvenær. Icesave-skuldbindingunum á að fresta um sjö ár og hér eiga heimilin endalaust að fresta sínum úrræðum, án þess að stjórnvöld komi með heildstæðan úrræðapakka fyrir þá sem eru í vandræðum.

Ég spyr því hv. þingmann í framhaldi af þessum orðum mínum: Hvað sér ríkisstjórnin fyrir sér? Og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum heimila og fjölskyldna til framtíðar?