138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:44]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum til atkvæða um frestun á uppboðum margra íslenska heimila um fimm mánaða skeið. Þessi heimili munu þurfa að bera dráttarvexti, sem eru einir þeir hæstu í heimi. Ég vildi svo óska þess að ég þyrfti ekki að greiða atkvæði með þessu hér í dag, en það verð ég að gera vegna úrræðaleysis ríkisstjórnarinnar, vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar í þágu skuldugra íslenskra heimila.

Við framsóknarmenn höfum nú á annað ár talað fyrir því að það þurfi að koma til almenn leiðrétting gagnvart skuldugum íslenskum heimilum. Nú er komið á annað ár. Við höfum lagt fram okkar efnahagstillögur. Það hafa aðrir þingflokkar stjórnarandstöðunnar gert. Á okkur hefur ekkert verið hlustað. Það hefur engin samvinna verið um þetta mikilvæga mál. Þessi frestun staðfestir enn og aftur að það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera fyrir heimilin í landinu er langt frá því að vera fullnægjandi. Við hljótum að fara að kalla eftir því, frú forseti, að gripið verði til einhverra raunverulegra aðgerða (Forseti hringir.) gagnvart skuldugum heimilum hér á landi.