138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég hef nú þegar greitt atkvæði með þessari tillögu vegna þess að það er svo nauðsynlegt að við þingmenn allir, sama hvar í flokki við stöndum, einhendum okkur samhent í það verkefni að vinna úr þeim gríðarlega vanda sem fyrir okkur er, að leysa úr skuldavanda heimilanna. Ræða eins og sú sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti hér áðan er hvorki innlegg í umræðuna né hjálpleg til að ná fram þeirri samstöðu hér í þinginu sem við verðum að fá. Þetta frumvarp og sú samstaða sem um það er og afgreiðslu þess er merki um að við þingmenn ætlum okkur að vinna saman við að leysa þennan vanda heimilanna af því að vandi heimilanna á Íslandi er vandi íslensku þjóðarinnar. Ef við leysum ekki þann vanda leysum við heldur ekki vanda íslensku þjóðarinnar. Tíminn er á móti okkur í þessu máli og við höfum engan tíma fyrir ræður eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt hér áðan. Núna gildir að við stöndum saman og vinnum íslenskri þjóð gagn. (Forseti hringir.)