138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þann hátt á sem alla jafna er við utandagskrárumræðu þegar hv. þingmenn senda, í það minnsta hef ég gert það, spurningar til hæstv. ráðherra þannig að hæstv. ráðherra hafi ráðrúm til að svara þeim. Ástæðan er einföld, ég ætla ekki að bera neinar spurningar fram til hæstv. ráðherra sökum þess að hæstv. ráðherra er ekki vanur að svara þeim spurningum sem til hans er beint. Þannig var ég með sambærilega umræðu 6. nóvember á síðasta ári og svar hæstv. ráðherra við málefnalegum spurningum sem hann hafði þá fengið voru þær að hann hefði skipað nefnd til að skoða þær og hún ætti að svara þeim spurningum sem til hans var beint. Þau svör hafa enn ekki borist. Ég veit ekki hvort þetta hefur eitthvað að gera með það að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir í samtali við fjölmiðla að hann líti svo á að störf okkar á þingi samsvari því sem Morfís gerir, sem er ágætisræðukeppni, og honum finnist helst til asnalegt að taka þátt í slíku af því hann gerði það þegar hann var tvítugur og vill ekki gera það aftur þegar hann er orðinn fimmtugur.

Hvað sem því líður, virðulegur forseti, horfum við upp á það að strax eftir hrunið og í kosningabaráttunni og í öllum yfirlýsingum stjórnmálamanna hafa menn talað um að eitt af stóru verkefnunum, kannski á eftir því að slá skjaldborg um heimilin, sé að koma hér á gagnsæi og jafnræði, og að samkeppnissjónarmið skyldu í hávegum höfð þegar kæmi að endurskipulagningu fyrirtækja hér á landi. Ástæðan fyrir því að allir vildu gera þetta var sú að menn vilja tryggja réttlæti til að byggja hér upp traust.

Bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gengu m.a.s. svo langt að þeir tjáðu sig um einstakar afskriftir hjá einstaka viðskiptamönnum fyrir um ári. Ástæðan fyrir því að við erum einfaldlega að ræða þetta hér er að þetta hefur ekki gengið eftir, svo maður segi það bara eins og það er. Það hefur ekki gengið eftir að hafa gagnsæi í þessari vinnu. Það hefur ekki gengið eftir að hafa jafnræði. Menn vita ekki hvaða samkeppnissjónarmið liggja til grundvallar — ef þau liggja til grundvallar — og svo sannarlega er ýmislegt sem bendir til þess að skilaboðin sem við sendum séu að við refsum þeim aðilum í atvinnulífinu sem hafa sýnt ráðdeild.

Virðulegi forseti. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Þetta gerist vegna þess að stjórnvöld sem eigendur og sem löggjafar setja ákveðnar reglur fyrir bankana og halda því statt og stöðugt fram, og því hefur ekki verið mótmælt, að þeir fari eftir þeim reglum. Það er ekki boðlegt að hæstv. forsætisráðherra komi fram í fjölmiðlum og segist vera afskaplega hissa á þeim fréttum sem fram koma um endurskipulagningu fyrirtækja og eigenda þeirra. Hæstv. forsætisráðherra er með bankamálaráðherra og heila ríkisstjórn sem á að taka á þessum málum. Enginn er að tala um það að ríkisvaldið eigi að fara í einstök mál, en hér var lagt upp með að menn mundu setja reglur og hafa gagnsæi og jafnræði að leiðarljósi.

Formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, hefur bent á vandann sem hún telur þann að hafa ópólitískan viðskiptaráðherra. Hún hefur lýst því yfir í fjölmiðlum. Það má vera, ég held hins vegar að ekki sé hægt að einfalda málið þannig. Lausnina í þessu, virðulegi forseti, tel ég vera þá að við höldum okkur við þau gildi sem lagt var upp með. Ég tel að við þurfum í fyrsta lagi að skoða hvernig staðið hefur verið að meðferð á skuldum fyrirtækja og eigenda á þeim tíma sem liðinn er frá hruninu. Ég tel sömuleiðis að hv. viðskiptanefnd eigi að skila til þingsins skýrslu um það sem nefndin hefur orðið áskynja í sinni umræðu.

Í þriðja lagi verðum við að ræða hér hvaða leið við erum að fara. Samkeppniseftirlitið hefur hvað eftir annað bent á að japanska módelið sé víti til varnaðar og að aðrar leiðir eigi að fara. Þetta er nokkuð sem við þurfum að ræða og upplýsa um niðurstöðu okkar í því efni.

Í fjórða lagi tel ég mikilvægt að við sendum rétt skilaboð og að þau gildi sem allir eru sammála um skuli vera í hávegum höfð í þeim reglum sem eru í gildi.

Í fimmta lagi verðum við að fara að framkvæma. Það er algjörlega ljóst að ef við bíðum með afskriftir og bíðum með að taka á málefnum fyrirtækjanna mun það skapa gríðarlegan vanda.

Í sjötta lagi, og það er kannski stærsta einstaka málið, getum við ekki skilið þetta frá fjárhagsvanda (Forseti hringir.) heimilanna. Við verðum að leysa þann þáttinn.

Í sjöunda lagi (Forseti hringir.) verða stjórnvöld að standa með þeim ákvörðunum sem þau taka. (Forseti hringir.) Sú staða sem er uppi núna þar sem engin forusta er í landinu skapar (Forseti hringir.) ein og sér mikinn vanda.