138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afskriftir og fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og eigenda þeirra hjá fjármálastofnunum.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði að við sölu á föllnum fyrirtækjum sé ferlið opið og að þar hafi allir jafna aðkomu. Það er líka grundvallaratriði að upplýst sé um helstu afskriftir og færð fram rök fyrir því gagnvart almenningi hvers vegna í þær er ráðist. Það er líka mikilvægt að bankarnir geri siðferðiskröfur og krefji um traust vegna þess að við endurreisum ekkert fjármálakerfi á Íslandi nema með því að skerpa á siðferði í viðskiptalífinu og efla þar traust. Endurheimtur fjármálakerfisins byggja þegar upp er staðið alltaf á því að það takist að byggja þetta traust og að það takist að varðveita greiðsluviljann í landinu. Það verða bankarnir líka að hafa í huga þegar þeir stíga fram í því viðkvæma ástandi sem nú er. Um leið er þjóðhagslega mikilvægt fyrir okkur öll að fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækjanna geti gengið sem allra hraðast fyrir sig til þess að hjól atvinnulífsins komist á þann skrið sem dugar til þess að hleypa hér hagvexti á ný af stað til að sinna því siðferðilega verkefni sem sannarlega er skylda okkar allra að rækja, að skapa atvinnu í landinu fyrir vinnufúsar hendur sem núna ganga atvinnulausar um götur, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) þúsundum saman.