138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég held að við séum alveg sammála markmiðinu en það geta verið álitamál, spurning um leiðir að þessu marki. Það er gaman að við getum sammælst um einhver mál á vettvangi þingsins eins og þetta mál vegna þess að ég hef orðið var við og verð í raun var við sívaxandi gremju í samfélaginu vegna allra þeirra frétta um að menn séu að koma undan eignum og fleira eftir því. Á sama tíma og hinn venjulegi launamaður er að reyna að standa undir því að borga skuldbindingar sínar er náttúrlega ekki líðandi að einhverjar sögur gangi um það — og við eigum svo sem ekki að ýta undir það hér en þær virðast oft koma frá ábyggilegum heimildum í fjölmiðlum — að við séum ekki að reyna að gera allt til að koma í veg fyrir að þeir aðilar sem skildu eftir sig skuldaslóð komi öðrum eignum sínum úr landi eins og sumar fréttir benda til.

Ég held að við séum alveg sammála markmiðinu og þær áhyggjur sem ég hafði af málefnum skattsins og skattrannsóknarstjóra eru þá óþarfar ef marka má orð hæstv. ráðherra. Ég tel hins vegar að eftirlitshlutverk þingsins sé mikilvægt í þessum efnum og ég held að í framhaldi af þessari umræðu væri nauðsynlegt — án þess að ég beri nokkurt vantraust til orða hæstv. ráðherra — og alveg fullt efni til þess að efnahags- og skattanefnd þingsins kalli þessa aðila á sinn fund og fari yfir þau gríðarlega umfangsmiklu mál sem embættin eru að fást við, og hvort löggjafinn og fjárlögin veiti þessum mikilvægu stofnunum þá nauðsynlegu fjármuni og nauðsynlegu aðstöðu til að rannsaka þessi gríðarlega umfangsmiklu mál sem geta skipt sköpum í því að ná inn verulegum fjármunum í ríkissjóð, í vasa skattborgaranna (Forseti hringir.) og þess vegna held ég að efnahags- og skattanefnd ætti að taka þetta mál upp á sína arma.