138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég man eftir þessum sjónarmiðum hv. þingmanns og áhyggjum. Ég held að það sé sem betur fer ekki ástæða til að hafa stórar áhyggjur af þessu, málefni minni aðila sem eru til úrlausnar vegna ágreinings um einhver skattaleg atriði munu ekki koma hér við sögu svo lengi sem það er viðfangsefnið að fá botn í það ef deilur standa um álagningu, vantaldar tekjur eða ofáætlun eða annað í þeim dúr. Það er ekki fyrr en mál sætir rannsókn vegna gruns um refsiverð athæfi sem þessum heimildum yrði beitt. Það er alveg skýrt í lögunum. Og þar með held ég að í afar fáum tilvikum væri hætta á að minni háttar ágreiningsmál, sem eru auðvitað alltaf í bunkum til umfjöllunar og úrvinnslu á mismunandi stigum í skattkerfinu, lentu inn í þennan farveg. Ljóst er að hér er verið að tala um að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum er grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. beinist að eða að um er að ræða greiðslur samkvæmt 116. gr. Þessar heimildir hér til skattyfirvalda eru algerlega sambærilegar þeim sem lögreglan hefur, samanber 88. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem eru heimildir til kyrrsetningar eigna innan vel skilgreindra marka.

Ég held að þurfi heldur ekki að hafa áhyggjur af því að menn fari offari með þessar heimildir og þaðan af síður að menn færu að hóta beitingu þeirra, ég held að það sé afar fjarlægur möguleiki að menn færu að beita slíku, enda þurfa þessar forsendur alltaf að vera fyrir hendi til að það komi til álita að gripið sé til þessa ráðs og væntanlega fyrst og fremst þegar um viðameiri mál er að ræða. Menn færu tæpast út í slíkar aðgerðir ef um minni háttar fjárhagslega hagsmuni er að ræða. Ég held að það liggi algerlega í eðli máls að þetta tæki mun fyrst og fremst verða gagnlegt þegar kemur að hinum stærri málum þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og málin sæta þegar rannsókn vegna gruns um einhverja refsiverða háttsemi.