138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst skattfrelsi utanríkisþjónustunnar ekki hluti af kjörum starfsmannanna. Þeir eru oft að vinna hlið við hlið og jafnvel á Íslandi og eru skattfrjálsir og sá sem vinnur við hliðina á þeim er ekki skattfrjáls. Og það er ekki tekið tillit til þess í launum, ég fullyrði það. Þau eru ekki lækkuð vegna þessa.

Varðandi það að við séum í þrengingum finnst mér siðareglur ekkert koma þrengingum við. Menn eiga ekki að nota stöðuna af því að það eru þrengingar til að fara að minnka þessar reglur um vildarpunkta og dagpeninga, heldur er þetta nokkuð sem býr til siðleysi í þjóðfélaginu. Það átti að skoða vildarpunktana en svo sofnaði það. Að sjálfsögðu sofnar það. Þeir sem eru að skoða málið njóta vildarpunktanna sjálfir. Það er þannig. Hvaða áhuga hafa þeir á því að geta ekki farið í ókeypis sumarleyfi, á kostnað ríkisins?

Það er eins með dagpeningana. Þetta sofnar vegna þess að þeir sem fjalla um málið hafa af þessu stóran hag sjálfir. Þá gerist ekki neitt. Þarna þarf styrkari stjórn þeirra sem ráða málum.

Skattfrelsi utanríkisþjónustunnar, þetta er ekkert annað en — ég veit ekki hvað á að kalla þetta, samtök allrar utanríkisþjónustu alls heimsins. Í öllum stóru stofnununum, t.d. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, eru menn skattfrjálsir, þykjast gæta hagsmuna lítilla, fátækra barna, njóta svo sjálfir gífurlegra skattfríðinda, velferðarkerfisins og alls sem skattfríðindin eiga að standa undir. Þau keyra á sömu vegum og við og nota nákvæmlega alla þjónustu, heilbrigðisþjónustu og annað slíkt — eins og við. Þau taka hins vegar ekki þátt í kostnaðinum og það finnst mér ósiðlegt.