138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hrædd um að hv. þingmaður hafi eitthvað misskilið mál mitt áðan. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að siðareglur komi hreint ekkert þrengingum við. Þær hefði átt að vera búið að setja hér fyrir langalöngu, enda kom ég með frumvarp um það aftur og aftur — og það var á tímum góðæris. Ég tengi þetta alls ekki saman.

Það sem ég nefndi var hvort ákvæði um dagpeningana ætti heima í siðareglum. Ég efaðist um það. Hitt sagði ég, að það ætti kannski að taka enn frekar á og þrengja að í dagpeningagreiðslum en gert hefur verið af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna getur hv. þingmaður ekki haldið því fram, eins og hv. þingmaður gerir, að ríkisstjórnin hafi ekkert gert hvað þessa þætti varðar. Hún hefur gert marga hluti til að þrengja að í dagpeningagreiðslum. Ég nefndi dagpeningagreiðslur maka, það hefur verið þrengt að í dagpeningakerfinu almennt og ég sagði að kannski væri full ástæða til að skoða það að þrengja enn frekar að í þessum málum.

Varðandi vildarpunktana er alveg sjálfsagt að skoða það mál áfram. Það hefur verið gert og það er sjálfsagt að rifja upp fyrirstöðuna þegar það var skoðað. Af hverju var ekki tekið á þessum vildarpunktum? Mig minnir að það hafi verið í tíð hæstv. síðasta fjármálaráðherra, Árna Mathiesens, því var beint til hans að taka á þessum málum en ekkert var gert í tíð hans sem fjármálaráðherra. En við skulum skoða hvort núverandi fjármálaráðherra hafi einhver tök á að taka á þessu máli. Eins og ég sagði man ég ekki betur en að sett hafi verið fram einhver skýring á þessu af hálfu flugfélaganna sjálfra, um að ef fara ætti þá leið að þetta mundi ekki renna til starfsmanna heldur í ríkissjóð væru þau með einhverjar skoðanir á því og mundu skoða að þetta yrði hreinlega fellt niður. Það er sjálfsagt að skoða það og ég geri ráð fyrir að þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir verði ræddir ásamt fleiru þegar þetta frumvarp kemur til meðferðar í allsherjarnefnd.