138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[15:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleg svör við mörgum spurningum sem ég bar fram, spurningum sem mér finnst vera mikilvægar þegar við erum að tala um trúverðugleika þessarar áætlunar um að setja á fót siðareglur. Eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega er eftirfylgnin mikilvæg en þegar maður nefnir eftirfylgni við aðrar áætlanir sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er árangurinn ekki glæsilegur.

Hæstv. ráðherra nefndi að 2.500 störf hefðu skapast vegna þessarar áætlunar ríkisstjórnarinnar en ég vil geta þess að gert var ráð fyrir að virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður mundi skapa 2.000 af þessum 4.000 störfum. Á síðasta blaðamannafundi hjá iðnaðarráðherra kom í ljós að einungis verða 30–40 störf að veruleika af þeim 2.000 sem áttu að vera. Þá eru einungis 2.000 ársverk eftir af þessari glæsilegu áætlun sem ríkisstjórnin kynnti fyrir ári.

Gert var ráð fyrri 110 ársverkum í snjóflóðavarnir og helmingurinn af þeim, hálfur milljarður, átti að fara í snjóflóðavarnargarð í Neskaupstað. Það var slegið af, það eru væntanlega 55 störf. Það átti að fjölga störfum um 300 vegna minni útflutnings á óunnum fiski. Ég veit ekki til þess að mörg störf hafi skapast í framhaldi af því. Síðan var það hækkun endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar. Við þekkjum það við fjárlagagerðina síðustu að það var heilmikið skorið niður, en það átti að fjölga um 120 ársverk. Það er því alveg ljóst að við þurfum að fara eitthvað betur ofan í þessa áætlunargerð ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst að við þurfum að gera miklu betur í gerð áætlana og eftirfylgni með þeim. Það var kannski þess vegna sem ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það hvernig hún ætlaði að (Forseti hringir.) innleiða þessa siðareglur og láta þær virka sem skyldi.