138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[16:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ágætt sé að við ræðum þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar undir réttum lið þegar að því kemur.

Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar fyrir ári síðan sagði hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, með leyfi forseta, „að þessu til viðbótar gæti virkjun við Búðarháls og orkuiðnaður skapað 2000 störf til viðbótar. Ekki er gert ráð fyrir Helguvíkurálveri í þeim tölum.“

Það er því margt sem hefur farið á skjön og mér þykir náttúrlega miður ef allur tími ríkisstjórnarinnar hefur virkilega farið í það að leysa eitt mál, sem er Icesave-málið. Ef það er það eina sem ríkisstjórnin hafði ætlað sér að gera á síðasta ári og sé enn í, þá er það nú ekki glæsilegur árangur í þeim efnum.

Mér finnst, svo ég ljúki tilsvari mínu á uppbyggilegum nótum, hæstv. ráðherra að mörgu leyti mun opnari gagnvart samvinnu og samstarfi í þinginu í tilsvörum sínum hér en á því herrans ári 2009. Ég vona að það sé það sem koma skal vegna þess að fram undan eru mjög erfið verkefni á því sviði að koma til móts við skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna. Það hefur allt of lítið gerst til að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Og ég ætla að segja það nú að ég ætla ekki að halda því fram að ekkert hafi verið gert, eins og hæstv. ráðherra ræddi við mig á dögunum um að ég hefði sagt. En það hefur komið í ljós í könnunum ASÍ að 80–90% af þeim sem hafa verið að þiggja skjaldborgina sem ríkisstjórnin bauð, telja að sú skjaldborg dugi ekki til.

Ef við getum verið sammála, ég og hæstv. forsætisráðherra, um að þetta vandamál sé til staðar, það verði að koma til móts við skuldug heimili og skuldug fyrirtæki, getum við verið sammála um það? Ég held það, já. En þá skulum við setjast yfir það mál, eins og Icesave-málið, eins og við áttum að gera í upphafi og ræða þvert á flokka um sameiginlegar lausnir á þessum erfiðu viðfangsefnum. (Forseti hringir.) Við verðum að hætta að vera í þessum skotgröfum sem hefur einkennt störf þingsins allt síðasta árið.