138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

375. mál
[16:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að hv. þm. Birkir Jón Jónsson dregur aðeins í land frá því sem (Gripið fram í.) við ræddum um daginn þegar hann sagði að ríkisstjórnin hefði ekkert gert að því er varðar skuldastöðu heimilanna. Mér finnst það ánægjulegt að hv. þingmaður haldi hér uppi heiðri sannleikans og heiðarleika og fari rétt með vegna þess að það er allt of mikið um það að farið sé rangt með hér í þessum ræðustól, af því að við erum nú að ræða siðareglur og heiðarleika, þannig að ég vil koma því að.

Ég vil líka nefna að hv. þingmaður verður að skoða það og viðurkenna að ríkisstjórnin hefur farið í 20–30 aðgerðir fyrir heimilin í landinu (Gripið fram í.) og 50–70% af þeim sem eru í miklum vanda hafa getað nýtt sér þessi úrræði. Hv. þingmaður, af því að hann talar oft um vaxtabætur, verður að viðurkenna að ríkisstjórnin hefur á þessu eina ári í kreppunni tvöfaldað vaxtabæturnar úr 4–5 milljörðum í 10 milljarða og hún hefur farið í útgreiðslu á séreignarsparnaðinum upp á 15 milljarða kr. Þetta hefur nú aukið veltuna í samfélaginu og hjálpað mörgum þegar við erum að tala þarna um 20–25 milljarða.

Ég skal fyrst manneskna viðurkenna að það þarf að gera betur og sérstaklega fyrir fólk með litlar tekjur og er í miklum erfiðleikum. Ég býst við að þær tölur sem hafa verið nefndar hjá Neytendasamtökunum, og við erum að skoða þær, þar sem talað er um að 20–30% séu í miklum erfiðleikum, að þær tölur séu of háar. Engu að síður þarf að taka á þessum málum og að því er verið að vinna af fullum krafti. Við höfum sett í þetta eins mikinn kraft og hægt er. Við viðurkennum alveg að það þarf að gera enn betur í þessum málum enda er stöðugt verið að vinna að því. Þetta er í stöðugri endurskoðun og við erum að vinna með aðgerðir til þess að hjálpa þeim sem verst standa. Ég viðurkenni fúslega að það þarf að gera enn betur í þessum málum og við erum að vinna að því.