138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:44]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að halda áfram þar sem ég hætti rétt áðan. Þar var ég komin að því að fjalla um vernd gegn meiðyrðamálsflakki, eins þjált og það orð er. Hún snertir jafnan rétt einstaklinga til að verja sig fyrir dómstólum en bresk meiðyrðalöggjöf, sem er mjög ströng, getur snert meiðyrðamál á Íslandi. Hægt er að kæra fyrir breskum dómstólum einstaklinga á Íslandi fyrir meiðyrði sem þeir hafa látið falla á Íslandi. Þar stýrir fjármagn mjög miklu um hvort einstaklingar geta varið sig með sómasamlegum hætti. Í slíkum tilfellum er kostnaðurinn orðinn aðalatriðið, þ.e. hvort viðkomandi hefur fjármagn til þess að halda úti málaferlum í lengri tíma. Slíkt brýtur gegn því sem ég áður hef nefnt um þann mikilvæga þátt lýðræðisins um réttláta málsmeðferð og því er afar brýnt að úr þessu verði bætt á Íslandi.

Þá ætla ég að fjalla um upplýsingafrelsið. Upplýsingalögin hafa verið endurskoðuð reglulega frá því að þau voru fyrst sett árið 1996. Ég tel nauðsynlegt að þau verði endurskoðuð að nýju. Stjórnsýslan starfar í þágu almennings og hið opinbera þarf að ganga á undan með góðu fordæmi hvað varðar gagnsæi og skilvirka stjórnsýsluhætti og leggja þannig sitt af mörkum til að auka traust í samfélaginu. Skortur og tafir á upplýsingum og vöntun á gagnsæi grefur undan trausti. Á sama hátt og ég minntist á áðan er mikilvægt að með endurskoðun þessara laga verði friðhelgi einkalífsins, hins almenna borgara sem leitar til stjórnsýslunnar, höfð að leiðarljósi þar sem lögin og reglurnar þurfa ávallt að vera fyrir samfélagið og gæta hagsmuna þeirra sem við þær búa.

Virðulegi forseti. Ég þekki það af eigin raun að búa í ríki þar sem útgáfu-, tjáningar- og málfrelsi er heft. Þá á ég ekki við Ísland, hér á ég við Kína, ég bjó þar skamma hríð. Það er afar skaðlegt fyrir þegna þess lands og samfélag. Ég hef verið talsmaður þess að við beitum okkur sem sjálfstætt ríki á erlendum vettvangi fyrir almennum mannréttindum á borð við þau sem ég áður hef nefnt. Ísland hefur alla burði til þess.

Að lokum vil ég segja að ég bind vonir mínar við að Íslensku tjáningarfrelsisverðlaunin sem getið er í þingsályktunartillögunni muni hafa jákvæð áhrif á ímynd Íslands og að við verðum öðrum fyrirtækjum fyrirmynd á sviði mannréttindamála.