138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi.

383. mál
[16:47]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu nýtt, stórt, flókið og mjög merkilegt mál sem hefur marga anga og kallar á flókna úrlausn við að gera það að heildstæðu frumvarpi og heildstæðu umhverfi. Þetta er samt til marks um hverju hægt er að ná fram ef fólk leggur sig fram við að skoða þennan geira sem fjallar um málfrelsi og mannréttindi og vernd heimildarmanna, geira hvers samfélags sem, ef við horfum yfir flóruna í heiminum, er nánast hvergi eins. Þessi þingsályktunartillaga, þegar hún fer í gegn, því að væntanlega mun hún fara í gegn þar sem á henni eru þingmenn allra flokka, mun gera Ísland í raun að einstökum stað í heiminum hvað þetta varðar og gera Ísland að fyrirmynd annarra landa í þessu tilliti og væntanlega brjóta í blað í fjölmiðlasögunni. Hér er verið að færa til veggi og þröskulda af meira afli en gert hefur verið áður hvað þessi mál varðar og ber að fagna því sérstaklega að þingmenn allra flokka hafi komið auga á mikilvægi þessa máls og tekið þátt í að flytja það.

Ég mun ekki hafa ýkja mörg orð um þetta mál, það er langt og flókið, en mig langar þó að tæpa á nokkrum atriðum sem ég tel mikilvæg. Það fyrsta er náttúrlega það sem blasir við öllum sem vilja horfa á, sú dapra staða fjölmiðlaumfjöllunar sem við búum við í dag og það óöryggi sem fréttamenn búa við í dag, staða sem er óásættanleg í lýðræðisríki þar sem upplýst umræða og virk fjölmiðlun er grunnundirstaða þess að lýðræðið sjálft virki. Þingsályktunartillagan og það sem kemur í framhaldi af henni mun styrkja mjög allt þetta umhverfi og efla umræðu um það og gera ljóst hversu nauðsynlegt er að hér séu til staðar eins og í öðrum lýðræðisríkjum öflugir fjölmiðlar sem geta sinnt hlutverki sínu vel.

Staðan á Íslandi hvað varðar frétta- og fjölmiðlaumhverfi er í rauninni einstök í dag í samanburði við þau vestrænu ríki sem eru með þroskað lýðræði og við viljum gjarnan bera okkur saman við. Þessi tillaga hefur fengið góðan hljómgrunn hjá blaðamannastéttinni og vakið mikla athygli. Það er fagnaðarefni að þetta verði e.t.v. til þess að hleypa nýju blóði í fréttaflutning og fjölmiðlun, ekki veitir af. Tillagan mun líka ýta undir opið samfélag, hún mun ýta undir opnari stjórnsýslu og opnara viðskiptalíf með vernd upplýsenda sjálfra sem og með vernd útgefenda fjölmiðla og vernd fyrir blaðamenn og fréttamenn gegn lögsóknum. Við höfum hrópandi dæmi um það hér á landi þar sem lögsókn gegn einstaklingi búsettum á Íslandi, sem skrifaði á Íslandi, gekk í gegn þó að hún væri tekin fyrir í erlendum dómsal. Einkennilegt fyrirbæri finnst mér og í rauninni svolítið sorglegt að það skuli vera hægt að hefta tjáningarfrelsi manna með þessum hætti á Vesturlöndum. Þessi tillaga mun taka á því og gera mönnum kleift að halda úti gagnrýni án þess að eiga það á hættu að verða hundeltir af lögfræðingum og dómstólum hvar svo í veröldinni sem þeir eru.

Þetta mál mun líka vekja mikla athygli vegna þeirra verðlauna sem tilgreind eru í tillögunni. Það mun setja Ísland í svolítið sérstaka stöðu, sérstaklega þegar haft er í huga það sem gengið hefur yfir þjóðina undanfarið eitt og hálft, bráðum tvö ár, þar sem leyndarhyggja og bankaleynd og yfirhylming á mjög mörgum sviðum gerði það að verkum að sú glæsta borg sem menn töldu að væri verið að byggja hér sem heitir Ísland, var í rauninni byggð á sandi og innihaldslaus og hefur hrunið til grunna.

Mjög mikilvægt er að kerfi eins og við búum við skapi vernd fyrir upplýsendur eða uppljóstrara sem kallaðir eru, þ.e. að því fylgi ákveðin kvöð í kerfinu að þeir sem vita um upplýsingar þar sem verið er að gera hluti sem eru á gráu lagalegu svæði, viti af því að þeir geti komið fram með þær upplýsingar og komið þeim á framfæri án þess að eiga á hættu að verða lögsóttir eða þeim verði refsað á annan hátt.

Eins og ég sagði áðan munu verðlaunin sem fylgja þessari tillögu — ég man nú ekki enska orðið á þeim en það skiptir ekki máli — vekja verðskuldaða athygli því að þau eru fyrst í sinni röð og þau eru fyrstu alþjóðlegu íslensku verðlaun sem verða veitt. Það verður fagnaðarefni að mæta á þá samkomu, vonandi innan ekki of margra ára, þegar þau verða veitt í fyrsta skipti. Ég fagna þessu máli eindregið.