138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að frú forseti er vanalega ekki hrifin af þessari tegund andsvara í sal Alþingis en vegna þess að ég hef mjög takmarkaðan tíma og verð að bregða mér út úr húsi vil ég aðeins bregðast við ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og því máli sem hún hefur flutt hér. Ég ætlast ekki endilega til þess að hún komi í andsvar við þetta „meðsvar“ mitt, af eðlilegum ástæðum, en ég undirstrika að ég styð þetta mál heils hugar og held að í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað hér á landi á undangengnum mánuðum þurfi að hugsa marga hluti upp á nýtt. Sá sem hér stendur þekkir ágætlega til þess þegar ráðherraræði er þó nokkuð mikið og þannig er það líka í dag. Ég held að við þurfum að fara að hefja Alþingi til vegs og virðingar og hætta þessu bixi, að einstaklingar geti bæði gegnt stöðu ráðherra og þingmanns. Við skulum gá að því að þessir einstaklingar þiggja umboð sitt frá alþingismönnum sjálfum sem eru löggjafarvaldið. En þessu hefur því miður gjörsamlega verið öfugt farið á undangengnum árum þar sem ráðherrar hafa í raun og veru, eins fáir og þeir eru, haft gríðarlega mikil áhrif á þau mál sem fara hverju sinni gegnum þingið, og þingmenn hafa allt of lítil áhrif á gang mála.

Ég tek líka undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um þá tíma að flokksræðið, sem við höfum oft og tíðum horft upp á er algert, ég vona að það sé að einhverju leyti á undanhaldi þó að það sé náttúrlega eðlilegt að það sé einhver agi þarna. Menn verða, þegar þeir eru kjörnir á Alþingi Íslendinga, að fá að standa með sannfæringu sinni í mikilvægum málum. Þetta er kannski upphafið að nýjum hugsunarhætti í vinnubrögðum á Alþingi (Forseti hringir.) og ég vona svo sannarlega að þetta mikilvæga mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur lagt hér fram verði að veruleika og ég styð það með öllum tiltækum ráðum.