138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

stjórnarskipunarlög.

18. mál
[17:34]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna innilega framlagningu þessa frumvarps. Það er mjög þarft og ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir málið. Ég tel það mjög brýnt eins og komið hefur hér fram. Ég er sammála öllu því sem komið hefur fram í umræðunni um að það sé mjög brýnt að betur verði skilið á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Það hefur lengi loðað við Alþingi að hér ríkti ráðherraræði, að ráðherrar fengju sínu framgengt og gætu vaðið nánast yfir þingið með þau mál sem þeim hentaði.

Frekari aðskilnaður þar að lútandi er góður. Í gær kom fram frumvarp sem skerpir líka á frekari aðskilnaði frá framkvæmdarvaldinu við skipan dómara, þ.e. að Alþingi muni þá hafa kannski úrslitaáhrif ef uppi verður ágreiningur um skipan dómara. Hér er verið að koma fram með mjög mikilvægar og merkilegar stjórnkerfisbreytingar sem eru af hinu góða.

Ég hef heyrt áhyggjur um að ef þingmenn verði ráðherrar og fari af þingi fjölgi í þingliði stjórnarsinna. Ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því. Það er skipað hlutfallslega í nefndir samkvæmt fjölda þingmanna hverju sinni og þar eru ráðherrarnir ekki með og það mundi ekki breyta neinu. Ráðherrarnir hafa ekki atkvæðisrétt áfram ef þeir hætta að vera þingmenn þannig að það breytir í sjálfu sér engu um vægið þar.

Ég held að þetta gæti líka leitt það af sér að frekar verði leitað til fólks utan þingsins til að taka að sér ráðherraembætti. Það yrði einhvern veginn eðlilegri dýnamík að ráðherrann væri ekki beint kjörinn á þing. Við höfum séð það hér í tveimur dæmum þar sem hæstv. dómsmálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra eru ekki þingmenn. Það hefur sína kosti og galla en það er a.m.k. í sumum tilvikum örugglega ágætismál. Ég fagna þessu.

Ég hef setið á fundi þar sem verið er að ákveða fyrir jólahlé hvaða mál eigi að klára fyrir jólahlé þingsins. Þar sátu þingflokksformenn, hæstv. forseti þingsins og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Ráðherrarnir tveir réðu í raun hvaða mál mundu fá afgreiðslu fyrir jól. Mér fannst það svolítið einkennileg upplifun og það er mjög þarft fyrir Alþingi og fyrir þingræðið að vera laus við svoleiðis forgangsröðun. Forseti þingsins og meiri hluti þingmanna hverju sinni eiga að ráða hér dagskránni. Það væri vel ef þessi breyting færi í gegn.

Ég styð hana heils hugar, ég er áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd og mun fylgjast með málinu af áhuga. Ég óska því góðs gengis.