138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hversu lengi eiga þingið og almenningur að bíða eftir því að fá skýr svör varðandi þessa þjóðaratkvæðagreiðslu? Hún er á næsta laugardag. Við í þinginu hljótum að fara fram á það af hæstv. forsætisráðherra, ef hún er þeirrar skoðunar að það sé tilgangslaust að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna, að hún taki þá af skarið varðandi það og lýsi yfir að það hafi verið mistök að fara með lögin sem afgreidd voru í lok síðasta árs í gegnum þingið. Það sé augljóst núna að hægt sé að fá mun betri niðurstöðu og hún svari því þá a.m.k. hvort hún er að velta því fyrir sér að fella þau lög úr gildi vegna þess að það hafi verið mistök að samþykkja þau á þinginu. Það er ekki bæði hægt að koma hingað upp og segja að menn séu að velta því fyrir sér að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og segja síðan í hinu orðinu að það sé tilgangslaust.

Ég á hér orðastað við forsætisráðherra Íslands, forustumann ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að fá skýrar línur frá forustumönnum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar um hvernig standa eigi að þessum málum.