138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég gæti eins spurt formann stærsta stjórnarandstöðuflokksins hvað hann telur að eigi að gera ef það liggur fyrir samningur í vikunni sem er miklu betri og ásættanlegur sem t.d. formaður Sjálfstæðisflokksins mundi geta staðið að ásamt öðrum stjórnmálaflokkum á landinu. Um hvað á þá að kjósa næstkomandi laugardag? Hv. þingmaður verður að svara því um hvað á að kjósa næstkomandi laugardag ef kominn er annar samningur á borðið. (Gripið fram í.) Ákvæði þess samnings sem á að fara að greiða atkvæði um eru þá orðin úrelt. Hv. þingmaður beinir þeirri fyrirspurn til mín hvort þau lög sem samþykkt voru og sem á að fara að greiða atkvæði um hafi verið mistök. Á sínum tíma voru það engin mistök en það er alveg ljóst að forsetinn setti málið í allt aðra stöðu með því að vísa málinu til þjóðarinnar.

Við höfum rætt það áður hvort ástæða væri til að fresta þessari atkvæðagreiðslu um eina, tvær eða þrjár vikur (Forseti hringir.) þar til niðurstaða fæst kannski í þessa samninga. Ég hef ekki heyrt að stjórnarandstaðan sé tilbúin til þess þannig að væntanlega fer þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fram. En ég spyr: Um hvað á hún að vera?