138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

heilsuefling í skólakerfinu.

[15:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós í forgangsröðun við núverandi aðstæður sé að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra. Jafnframt segir að áhersla verði lögð á heilsueflingu sem forvörn gegn sjúkdómum.

Rannsóknir hafa sýnt að íslensk börn á aldrinum 9–15 ára eru meðal þeirra þyngstu í Evrópu. Um 20% íslenskra barna eru talin vera of þung og þau eru auk þess með lakara þrek og hreyfa sig minna en þau sem eru í kjörþyngd. Sérfræðingar sem tjáðu sig um þessa niðurstöðu töldu að talan væri jafnvel enn þá hærri eða nær Bandaríkjamönnum þar sem 25% barna á aldrinum 6–17 ára eru of þung. Til samanburðar eiga 12–15% barna í Danmörku og Noregi við offitu að stríða.

Offita barna getur leitt til mikilla heilsuvandamála og nú síðast birtist frétt á visir.is um að börnum allt niður í þriggja ára aldur geti verið hætt við hjartasjúkdómum ef þau eru í yfirvigt. Á sama tíma var fjallað um það á Bylgjunni í morgun að verið sé að draga úr hreyfingu nema í framhaldsskólum og það sé alls ekki næg hreyfing í boði í grunnskólum.

Vinstri grænir lofuðu fyrir kosningar gjaldfrjálsum og hollum skólamáltíðum í grunnskólum landsins til að tryggja velferð barna og ungmenna. Svo má ekki gleyma því að ríkisstjórnin sjálf nefndi sig norræna velferðarstjórn. Benda má á að Svíar hafa boðið upp á ókeypis skólamáltíðir um nokkurra ára skeið og Finnar hafa boðið upp á fríar skólamáltíðir frá 1948. Það var talið skipta miklu máli þegar Finnar fóru í gegnum mjög erfiða efnahagskreppu að börn gætu fengið góða máltíð í skólum. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra og varaformann Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur: Hvað er að frétta af loforðum ríkisstjórnarinnar um að vernda hag og stöðu barnanna okkar? Hvað er að frétta af fríu skólamáltíðunum og af hverju er verið að skera niður hreyfingu barna okkar í skólakerfinu?