138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

heilsuefling í skólakerfinu.

[15:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Hins vegar virtist kjarninn í þeim vera sá að óskaplega lítið hefði gerst meðan hún hefði verið í ráðuneytinu og vísaði hún fyrst og fremst til þess sem aðrir ráðherrar hafa gert. Þegar umræða var sem virkust um ofþyngd barna var spurt: Hvað er til ráða? Þá var fyrst og fremst talað um skólann, númer eitt, tvö og þrjú, skólinn skiptir þar máli. Síðan var að sjálfsögðu talað um íþrótta- og æskulýðsfélög, þátt foreldra og stjórnvalda og svo heilbrigðiskerfið. Eins og ég benti á ætti fyrst og fremst huga að því að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra við núverandi aðstæður. Ég spyr: Hvað ætlar ráðherrann að gera? Eða er þetta bara enn eitt dæmið um það þegar Vinstri grænir gefa eftir kosningaáherslur sínar og lyppast niður? Heldur hæstv. ráðherra því kannski fram hér að Samfylkingin sé á móti fríum skólamáltíðum?