138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

spilavíti.

[15:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að enn á ný hefur vaknað sú hugmynd að koma upp spilavíti á Íslandi. Samkvæmt skoðanakönnunum væri slíkt í óþökk meiri hluta þjóðarinnar og í óþökk stjórnvalda á Íslandi og vísa ég þar í álit heilbrigðisráðuneytisins sem hefur tekið mjög eindregna afstöðu gegn slíku.

Heilbrigðisráðuneytið vísar í greinargerð frá landlæknisembættinu sem segir að slíkt gæti haft neikvæð áhrif á heilsu landsmanna. Landlæknisembættið færir rök fyrir því og vísar í margvíslegar rannsóknir.

Í greinargerð landlæknisembættisins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Spilafíkn er vaxandi vandamál á Vesturlöndum samhliða sífellt fleiri möguleikum til að stunda peningaspil, t.d. á veraldarvefnum.“

Hér er komið að tilefni þessarar fyrirspurnar. Ef farið er inn á vefmiðilinn visir.is í dag blasir þar við auglýsing sem er sérstaklega sniðin að því að lokka spilafíkla inn í spilavíti á netinu, nákvæmlega það sem landlæknisembættið varar hér við.

Samkvæmt hegningarlögum eru fjárhættuspil bönnuð á Íslandi. Þar vísa ég í 183. og 184 gr. almennra hegningarlaga.

Þar segir með leyfi forseta, í hinni 183. gr.:

„Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …“

Síðan segir í 184. gr.: (Forseti hringir.)

„Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum …“

Hvar er visir.is til húsa? Er ekki hér verið að brjóta landslög?