138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

skuldavandi heimila og fyrirtækja.

[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir rúmlega mánuði síðan spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvað liði frekari tillögum frá ríkissjórninni varðandi skuldavanda heimilanna og skuldavanda fyrirtækjanna. Þá svaraði hæstv. forsætisráðherra að það kæmi endurbætt frumvarp fljótlega að því er varðar greiðsluaðlögunina. Þá eigum við jafnframt eftir að sjá frekari úrræði varðandi hvernig haldið skal á málum þeirra sem komnir eru með eignir sínar í nauðungarsölu. Það er rúmlega mánuður síðan ég lagði þetta fram.

Við þekkjum öll hér inni að vika er mjög langur tími í pólitík, hvað þá mánuður, svo langur tími er erfiður fyrir fjölskyldurnar sem lifa núna í óvissu um framtíð sína og afkomu. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað megum við bíða lengi eftir tillögum frá ríkisstjórninni?

Það er vissulega rétt að draga það fram og halda því til haga að þau undur og stórmerki gerðust hér að við samþykktum á þinginu frestun á nauðungarsölunni. En það er bara frestun, það er ekki úrlausn. Við erum búin að fá drög að dagskrá þingsins þar sem segir m.a. að það eru þingmannamál í dag, m.a. um virkjunarkosti og garðyrkjubændur, fín mál. Á morgun verða m.a. þingmannamál um transfitusýrur, transfólk, áfengisauglýsingar, eflaust allt fín mál. Það er ekki fyrr en á fimmtudaginn sem hugsanlega eru boðuð ný stjórnarfrumvörp.

Þá hljótum við sjálfstæðismenn að segja: Ef það vantar tillögur til úrbóta varðandi efnahagsmál og atvinnumál er hægt að afgreiða tillögur okkar sjálfstæðismanna sem eru í efnahags- og skattanefnd, það er hægt að draga þær hingað inn í þingið. Við skulum einfaldlega ræða þær tillögur. Ég hlýt líka að spyrja ráðherra að því í ljósi þess að það er rúmur mánuður síðan ég lagði fram fyrirspurn: (Forseti hringir.) Hvaða tillögur fáum við þingmenn tækifæri til að ræða á fimmtudaginn? Hvaða stjórnarfrumvörp koma fram í vikunni fyrir fjölskyldurnar og fyrirtækin?