138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

skuldavandi heimila og fyrirtækja.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er auðvitað eðlilegt að þingmenn spyrji um hvort eitthvað meira eigi gera að því er varðar skuldavanda heimilanna. Það hefur margt verið gert eins og þingmenn þekkja, það eru komin á þriðja tug úrræða og við vitum að í bankakerfinu og hjá Íbúðalánasjóði hafa 50–70% af þeim sem eru í vanda nýtt sér þau úrræði sem þar eru fyrir hendi, eins og greiðslujöfnun.

Við erum vitaskuld að vinna áfram í þessum málum vegna þess að við höfum áhyggjur af hópnum sem verst er staddur, það er hópurinn sem er með minnstar tekjur. Síðasta föstudag fóru þeir ráðherrar sem hafa með þetta að gera yfir stöðuna ásamt seðlabankastjóra þar sem við reyndum að greina vandann og sjá hvað þetta er stór hópur. Ég held að það sé ljóst að það eru þeir sem eru með minnstar tekjurnar sem þarf að vinna betur fyrir.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, við vorum með frumvarpið um nauðungarsölur hér um daginn og frumvarpið um greiðsluaðlögun endurbætt sem víkkar út gildissvið laganna og tekur til fleiri sem eru í vanda. Það er í undirbúningi hjá dómsmálaráðherra og mér skilst að það verði tilbúið á næstu vikum, eins og hæstv. dómsmálaráðherra segir. Það tekur tíma að vinna úr þessu. Við verðum að afmarka aðgerðirnar við þá hópa sem helst þurfa á því að halda.

Það eru einstaklingar í miklum vanda, við vitum að það eru 19–20 þúsund einstaklingar sem eru á vanskilaskrá en það er líka fróðlegt að bera það saman við tímann þegar við vorum í miklu góðæri, þá voru 15 þúsund manns á vanskilaskrá. Þó að þessi hópur sé stór núna var líka mjög stór hópur á vanskilaskrá í góðærinu. (Gripið fram í.)

Ég fullvissa hv. þingmann (Forseti hringir.) um að það er verið að vinna að þessu af fullum krafti og við munum koma með þetta mál inn í þingið eins fljótt og við getum.