138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2007/44/EB um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE og sömuleiðis tilskipun 2002/83/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB, að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.

Tilskipun 2007/44/EB inniheldur ákvæði sem varðar virkan eignarhlut í lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum með leyfi til verðbréfaviðskipta, en hér er um að ræða breytingar á fimm tilteknum gerðum á sviði fjármálaþjónustu. Þessar breytingar eru allar tæknilegs eðlis og fyrir þeim er gerð ítarleg grein í tillögunni sjálfri. Af þessari tilskipun leiðir að gera þarf breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi og sömuleiðis lögum um fjármálafyrirtæki.

Frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi annars vegar og frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki hins vegar hafa þegar verið lögð fram á yfirstandandi þingi. 1. umr. um þau er lokið og þeim hefur báðum verið vísað til hv. viðskiptanefndar þar sem þau eru nú til efnislegrar umfjöllunar.

Meginbreytingin sem lögð er til í fyrrnefndum frumvörpum og tengist tilskipun 2007/44/EB sérstaklega er að ekki verður gert ráð fyrir umsókn til Fjármálaeftirlitsins um að mega fara með virkan eignarhlut í félögum sem falla undir viðkomandi löggjöf heldur aðeins tilkynningu. Sá sem tilkynnir getur þó ekki farið með eignarhlutinn fyrr en liðinn er sá tímafrestur sem Fjármálaeftirlitið hefur til að setja sig upp á móti kaupunum eða aukningunni. Að auki er líka um að ræða breytingu á þeim viðmiðum sem Fjármálaeftirlitinu verður heimilt að styðjast við við mat á hæfi tilkynnanda og jafnframt þeim tímafresti sem stofnunin skal vinna samkvæmt. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi er hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað með þessari tillögu eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem felst í ályktuninni svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.