138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar, vegna orða hv. þm. og formanns utanríkismálanefndar Árna Þórs Sigurðssonar, að spyrja hann frekar út í þá vinnu sem utanríkismálanefnd hefur verið að vinna varðandi aðkomu þingsins að EES-gerðum. Ég fagna því að hv. þingmaður beitir sér fyrir því innan forsætisnefndar að ýta á eftir þessum reglum sem samþykktar voru í utanríkismálanefnd 2008, að mig minnir, þverpólitískt, með allri þáverandi utanríkismálanefnd. Að mínu mati sýndi þessi vinna okkar að hér er borð fyrir báru, við getum þá frekar komið að athugasemdum og haft áhrif á gerðir á frumstigi en við gerum núna. Við fullnýtum ekki EES-samninginn okkur til hagsbóta og mér hefði þótt ráð að gera þetta áður en við færum að brölta í það að sækja um, en það er önnur umræða. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þetta.

Í reglunum er gert ráð fyrir því að eftirlitsnefndin með þessu verði sameiginleg, utanríkismálanefnd og EFTA-nefndin. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því? Styður hann þá tillögu fyrrverandi utanríkismálanefndar, sem hann átti að vísu ekki sæti í, ef mig misminnir ekki? Síðan er eitt lykilatriði í þeim tillögum, það er að utanríkisráðherra verði gert skylt að kynna allar tillögur fyrir utanríkismálanefnd eða sameiginlegu nefndinni áður en þær verða lagðar fyrir ráðherranefndina, sameiginlegu EES-nefndina. Hvað þykir hv. þingmanni um þá framkvæmd?