138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[15:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég er algerlega sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hennar. Ég átti, eins og kom fram hjá þingmanninum, ekki sæti í utanríkismálanefnd 2008 þegar verið var að hefja þessa vinnu. Það var undir forustu þáverandi formanns nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Ég átti hins vegar sæti þá eins og nú í þingmannanefnd EFTA. Í þeirri nefnd fengum við einnig þessar reglur eða drög að reglum til skoðunar og ég lýsti þar í öllum meginatriðum stuðningi við þær og styð þær. Þau drög sem verið hafa til umfjöllunar að undanförnu eru þau hin sömu og unnin voru á vegum þáverandi hv. utanríkismálanefndar.

Það sem aðallega hefur verið í skoðun undanfarið er að fara yfir þær hreint praktískt, þ.e. tæknilega með það fyrir augum að framkvæmdin verði samkvæmt reglunum í raun gerleg og framkvæmanleg praktískt séð þannig að það henti bæði þingi og framkvæmdarvaldinu sem þurfa síðan að vinna eftir þeim í framhaldinu. Ég tala fyrir þessum reglum og vil gjarnan að þær taki gildi sem allra fyrst. Ég hef, bæði sem formaður utanríkismálanefndar og núna upp á síðkastið sem fulltrúi í forsætisnefnd, lagt áherslu á það.

Varðandi það sem þingmaðurinn spyr um sérstaklega að því er varðar aðkomu þingsins þegar verið er að vinna málin á frumstigi, held ég að það megi almennt segja að því fyrr sem við komum að málum þeim mun meiri líkur eru á því að við getum haft áhrif á niðurstöðu málanna. Þess vegna held ég að það sé líka mikilvægt fyrir þingið að komast sem allra fyrst að umræðu um þau mál sem fara í þennan farveg. Ég undirstrika að það er mikilvægt að þingleg meðferð (Forseti hringir.) EES-mála fari í þann farveg alveg burt séð frá því hvað við gerum síðan varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) vegna þess að við erum enn þá í EFTA. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og sá samningur er í gildi.