138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[16:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að þessi ágæti hæstv. ráðherra sem talaði áðan væri þeirrar skoðunar innst inni að okkur væri betur borgið utan ESB. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sagði hér beinum orðum að EES-samningurinn ætti margt inni, hann var sammála mér um það, og að við fullnýttum hann ekki. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra einlæglega sem handhafa framkvæmdarvalds í utanríkismálum: Getur hæstv. ráðherra lofað mér því að þrátt fyrir miklar annir við aðildarumsóknina að hann passi upp á það að hans ágætu embættismenn sinni framkvæmd EES-samningsins eins vel og mögulega hægt er að gera og lofar hann mér því að forgangsraða þannig að okkar hagsmuna verði gætt í þeirri vinnu? Ég verð að segja að einmitt vegna þess að við höfum, eins og ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson voru að ræða hérna áðan, alltaf haft reglurnar til staðar um það hvernig við getum nýtt samninginn. En vegna smæðar okkar höfum við ekki komið því í framkvæmd, við höfum ekki forgangsraðað í þá veru. Þess vegna er ég svo hrædd um að núna þegar við erum byrjuð í þessu umsagnarferlið að EES-samningurinn gleymist. Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum hæstv. ráðherra um að hann telji samninginn eiga meiri möguleika. Ég er þeirrar skoðunar að þetta umsagnarferlið muni taka nokkuð mörg ár vegna þess að það er yfir margt að fara og okkur liggur ekkert á. En mér finnst liggja mikið á að fá skýr svör frá ráðherranum um það hvort ég geti ekki sofið róleg á nóttunni yfir því að hagmuna okkar í EES-samningnum verði gætt.