138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

397. mál
[16:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sýnir frjálslyndi og umburðarlyndi hæstv. fjármálaráðherra að hann skuli hafa verið aðili að þessum tillögum um að auka tengsl þingsins við Evrópuþingið. Ég vildi aðeins segja að þetta sem við erum að ræða höfum við talað um árum saman, sennilega töluvert áður en hv. þingmaður steig fyrst inn á þing. En það vekur athygli mína og skemmtan að það er fyrst núna þegar svo vill til að formaður utanríkismálanefndar er líka í forsætisnefndinni sem tekst að negla þetta saman þannig að það verði settar reglur og menn velta því fyrir sér í fullri alvöru að verja (Gripið fram í.) til þeirra fé til að sjá til þess að þær komist til framkvæmda, eða þannig skildi ég það. Ég hef alla vega fyrr í þessari umræðu tjáð mína einskæru ánægju yfir þeim upplýsingum sem formaður utanríkismálanefndar lagði fram um það sem á döfinni er vegna þess sem ég taldi vera nýlegar ákvarðanir innan forsætisnefndarinnar.