138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

tekjuskattur.

403. mál
[16:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er alltaf betra að hafa rúman tíma og geta legið vel og vandlega yfir málum. Það á við bæði um undirbúning þeirra og líka um vinnslu þeirra hér í þinginu. Einu sinni starfaði þingið í tveimur deildum við lagasetningu aðra en fjárlög. Þau fóru hér í gegnum sex umræður hið minnsta, stundum sjö, ef þau þurftu að ganga til baka vegna breytinga í seinni deild. Ýmsir höfðu af því áhyggjur á þeim tíma þegar þessu var breytt að það yrði þá stundum meiri fljótaskrift á afgreiðslu mála. En ég hygg nú að fáir vildu hverfa aftur til hins gamla fyrirkomulags því að að flestu leyti er nú starfsemi Alþingis skilvirkari og auðveldara að halda utan um hana með því að þingið starfi í einni málstofu.

Að sjálfsögðu er alltaf best að viðamiklar breytingar geti farið fram á grundvelli vandaðs undirbúnings og það gefist síðan rúmur tími til að vinna þau mál í þinginu. En við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, að við höfum ekki beinlínis verið að glíma við venjulegar eða hefðbundnar aðstæður að öllu leyti og þess vegna hefur það því miður orðið þannig að menn hafa þurft að gera mikið og það stundum á stuttum tíma. Það hefur markað starfið hér dálítið frá því á haustdögum 2008.

Varðandi skattkerfisbreytingarnar að öðru leyti, án þess að ég ætli að fara lengra út í það, tel ég að þrátt fyrir að þær hafi vissulega verið viðamiklar og það reyni á bæði skattkerfið og á fyrirtækin og þá sem sjá um launagreiðslur, skil á staðgreiðslu og öðru slíku hafi það gengið í það heila tekið ótrúlega vel. Kannski er hv. þingmaður mér þrátt fyrir allt sammála um að það hafi ekki verið miklar fréttir af vandkvæðum af þessu frá og með áramótum. Það má kannski helst segja að vissulega fylgir þessu einhver kostnaður, það er óumflýjanlegt, það þarf að breyta forritum og fleira í þeim dúr, það verður ekki dregin á það nein dul. En að öðru leyti held ég að kerfið hafi staðist þessa prófraun vel.