138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands.

358. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, eins og hér stendur. Að mati sérfræðinga eigum við Íslendingar aðild að tveimur svæðum, að Drekasvæðinu og svæði sem kallað er Gammurinn, sem er á svokölluðu Tjörnesbrotabelti. Öll þekkjum við umræðuna um Drekasvæðið, þangað hafa kraftar síðustu ára farið í að undirbúa olíuleit og enn hefur ekki orðið neinn árangur af því að fá til samstarfs fyrirtæki í þessari grein um olíuleit á Drekasvæðinu við Jan Mayen. Við fengum síðast af því fréttir núna í dag að það á að bjóða út olíuleit að nýju á árinu 2011 og rannsóknir því tengdar þannig að einhver frestur verður á því að áfram verði unnið þar.

Ástæðurnar fyrir þessum bægslagangi varðandi Drekasvæðið hef ég ekki á hreinu, hins vegar liggur fyrir að það hefur verið sett á oddinn allt frá árinu 2005. Það er raunar dálítið merkilegt að lesa sér til um þetta svæði sem kallað er Gammurinn. Þetta er belti um 150 km breitt, frá Öxarfirði og vestur í Eyjafjarðarál. Það er er u.þ.b. 50 km í norður/suður út undir Kolbeinseyjarhrygg og suður undir Húsavík.

Saga þessa máls er orðin merkilega löng þegar maður fer að rýna í þetta og raunar furðulegt hvers vegna rannsóknum á þessu svæði hefur ekki verið betur sinnt en raun ber vitni. Að einhverju leyti kann það að stafa af því að stjórnmálamenn og þeir sem um þessi mál sýsla hafi kannski ekki haft trú á því að olíu og gas megi finna í vinnanlegu magni við landið þrátt fyrir það að fyrir liggi þær vísbendingar sem ég hef getið um að það finnist gas á þessu svæði og raunar uppi á landi líka. Það er mjög merkilegt þegar haft er í huga hvert vægi og gildi olíuframleiðslu er fyrir velmegun á Íslandi og dugir í því efni fyrst og fremst að nefna fiskiskipaflotann og ekki síður öll aðföng til og frá landinu með flugi og skipum.

Það liggur fyrir að á þessu svæði hafa verið gerðar rannsóknir í gegnum tíðina og það má rekja þetta allt aftur til ársins 1970 þegar erlent fyrirtæki, Shell International, sem þá hét, óskaði eftir rannsóknarleyfi og fékk heimild til að leita en fékk hins vegar synjun um það að fá að gera þar frekari rannsóknir. Engu að síður voru þær rannsóknir sem Shell gerði þess eðlis að þær leiddu til þess að þykk setlög fundust í Skjálfandaflóa, allt að 5 km þykk, og þrátt fyrir þær niðurstöður var ekkert meira gert með það fyrr en seint og um síðir. Það var leitað eftir því fljótlega eftir að þessar niðurstöður lágu fyrir frá einum 25 fyrirtækjum að fá tækifæri til þess að gera frekari leit að olíu og gasi hér við land en íslensk stjórnvöld sáu þá ekki ástæðu til þess að verða við þessum óskum nema með þessum hætti, að heimila Shell að rannsaka þetta örlítið. Þær rannsóknir fóru fram í september 1971.

Það kann vel að vera að menn hafi ekki mikla trú á því að þetta gangi eftir með þeim hætti sem vænst er, þ.e. að þessi leit beri einhvern árangur, en það er ekki úr vegi við umræðu um þetta að rifja aðeins upp hvað það er í rauninni sem þarf til þess að mynda og varðveita gas eða olíu til að hægt sé að tala um auðlind. Það eru í rauninni fjögur atriði, ég styðst við þessa ræðu mína við samantekt sem Bjarni Richter hefur gert: Í fyrsta lagi þurfum við allmikið af lífrænu efni og meira en 1% af setmagni sem varðveist hefur þarf að vera kolefni. Í öðru lagi þarf það sem kallað er brotin jarðlög, þ.e. laus í sér, t.d. sand þar sem nægilegt holrúm er til staðar til að geyma gas og olíu sem kynni að geta myndast. Í þriðja lagi þarf þétt jarðlög sem hleypa ekki gasinu eða olíunni upp fyrir sig og í fjórða og síðasta lagi má nefna að það þarf rétt hitastig, en það er um 80–120°C fyrir olíu, hlutur gass verður stærri við hærra hitastig.

Þá er ekki úr vegi að nefna það hver staða rannsókna í þessum efnum á þessu svæði er. Jarðgas hefur fundist með nokkurri vissu í Öxarfirði og virðist samkvæmt athugunum hafa töluverða útbreiðslu þar. Meðal annars benda rannsóknir sem Rússar gerðu árið 2003 til þess að uppstreymi á jarðgasi, að vísu í mismiklu magni, sé að finna í Öxarfirði. Það hefur sömuleiðis verið sýnt fram á það að surtarbrandurinn á Tjörnesi sé ágætt móðurberg svokallað fyrir gas og hugsanlega olíu og yfirgnæfandi líkur eru til þess að sambærileg efni séu móðurberg fyrir gasið í Öxarfirði. Það liggur sömuleiðis fyrir að víðáttumikil svæði hafa fundist norður af landinu með þykkum setlögum sem mjög líklegt er að innihaldi lífræn efni. Það hafa fundist miklar holur eða grópir á botni Skjálfanda sem líklega má tengja uppstreymi gass og/eða vökva í gegnum misgengi sem þar er að finna á svæðinu. Það eru miklar vísbendingar um virkt gasuppstreymi í Skjálfanda meðfram Flateyjarmisgenginu svokallaða, jarðgas í botnsetri hefur fundist á nokkrum stöðum á Skjálfanda en mest þó utan Húsavíkur. Þó að vart sé hægt að fullyrða að um auðlindir sé að ræða á þessu stigi, að þær finnist þarna, hefur með óyggjandi hætti verið sýnt fram á að gas- og jafnvel olíumyndandi ferli geti átt sér stað á Tjörnessvæðinu.

Það er mjög ánægjulegt að upplifa það að áhuginn hefur vaxið örlítið á þessu því að gefin var út yfirlitsskýrsla núna á dögunum, 26. febrúar, um rannsóknir vegna olíuleitar á Gammssvæðinu á vegum Orkustofnunar. Orkustofnun fékk þá Bjarna Richter og Karl Gunnarsson, sérfræðinga hjá Ísor, til að taka saman yfirlit um þær rannsóknir sem stundaðar hafa verið á þessu svæði undanfarinn áratug og gefa ráðleggingar þá um framhald slíkra rannsókna. Skýrslan hefur verið birt, eins og ég gat um. Hún er á ensku en jafnframt fylgir henni ágrip á íslensku og ég hvet áhugaaðila til þess að kynna sér efni skýrslunnar. Þeir geta fengið mjög snöggsoðið yfirlit í því ágripi sem í aðdraganda skýrslunnar er að finna.

Meginniðurstaða þeirra er sú að það ríkir ákveðin óvissa um það hvort olíumyndandi jarðlög sé að finna í verulegum mæli og hvort þau hafi gefið frá sér kolvetni. Það eitt og sér nægir til þess að gera olíuleit á Gammssvæðinu áhættusama — mjög áhættusama, eins og þeir orða það. Engu að síður leggja þeir til að tekin verði sýni af botnseti í Skjálfanda og þau greind með tilliti til hugsanlegs gass og það sé að þessu sinni hæfilegur áfangi til að styrkja mat á olíulíkindum. Þeir hafa tiltekið og kortlagt þau svæði og gert tillögur um þau svæði sem leggja ætti áherslu á.

Það er rétt að ítreka það líka að þeir leggja áherslu á að jarðlagagerð og aldur svæðisins er ólíkt þeim olíusvæðum sem þekkjast annars staðar í okkar heimshluta og vegna þessa sé erfitt að koma á eiginlegri olíuleit eða freista olíufyrirtækja til að hefja viðamiklar olíurannsóknir nema sýnt sé að fyrir hendi sé möguleg ný tegund af olíumyndunarkerfi svo sem óvenjulegt uppsprettuberg, eins og þeir kalla það.

Í ljósi þess sem ég hef rakið hér er í rauninni mjög undarlegt að uppgötva við það að skoða þessi mál að rannsóknir skyldu ekki hafa verið meiri en raun ber vitni. Ég veit ekki hvaða ástæður liggja því að baki nema þá að menn hafi einfaldlega ekki haft kjark til þess á undanförnum árum eða áratugum að láta fullkanna þetta svæði. Það er mjög merkileg sú saga sem þarna hefur farið fram, m.a. er í Flatey borhola sem nær niður á um 500 metra dýpi sem dugar ekki til þess að ganga úr skugga um hvað þar er fyrir neðan. Menn meta það sem svo að slík borhola þyrfti að fara allt niður á 2.000 metra dýpi til þess að ganga úr skugga um það og styrkja rannsóknir í þessum efnum. Það liggur hins vegar fyrir að það er til nægilegur tækjabúnaður hér til þess að gera nauðsynlegar mælingar hér á landi. Íslenskt fyrirtæki sem Kjartan Hauksson er eigandi að, Djúptækni, hefur mjög mikla reynslu af lagnavinnu og rannsóknarstarfi á hafsbotni. Það var svo langt komið að á árinu 2006 leitaði Orkustofnun eftir hugmyndum um að reyna að fanga uppstreymi gass á þessu svæði en ekkert varð úr því svo sem ég hef hér rakið. Eins og kemur fram í þeim gögnum sem ég hef kynnt mér liggur fyrir hjá Orkustofnun að allur kraftur og allir fjármunir hafa frá árinu 2005 beinst að þessu margumrædda Drekasvæði í nágrenni Jan Mayen.

Ég tel einsýnt að menn haski sér að því verki nú til að fá frekari upplýsingar um þetta svæði. Það er allt sem styður að það verði gert. Það er í rauninni bráðnauðsynlegt að svo sé gert, að kannað verði til þrautar hvort olíuvæn setlög eða gas sé að finna á landgrunni Íslands. Það er hentugra að leita þangað en út á það svæði sem við höfum horft til því að okkur hefur gengið illa að fá fyrirtæki inn á Drekasvæðið.

Að sjálfsögðu er augljóst og þarf ekki að hafa um það mörg orð að það eru miklir hagsmunir í húfi. Ef nýtanlega náttúruauðlind er að finna á landgrunninu getur það gjörbreytt efnahag þjóðarinnar og ekki síður þess svæðis sem næst því stendur og stuðlað að nýrri atvinnusköpun sem leiðir þá af sér bætt lífsgæði, ekki veitir af um þessar mundir.

Ég vil svo að endingu nefna það hér við lok máls míns að tengt þessu verkefni hef ég haldið því mjög stíft fram að að sjálfsögðu eigi í tengslum við verkefni sem þetta þar sem við reynum að leita og rannsaka svæði í tengslum við náttúruauðlindanýtingu, að færa sem mest af þeirri starfsemi út til viðkomandi svæða. Ég nefndi það við þáverandi iðnaðarráðherra þegar umræðan um Drekasvæðið stóð sem hæst að það ætti að sjálfsögðu að einbeita sér að því að vinna málið með þeim hætti að færa þá starfsemi sem lýtur að olíuleit sem mest undir háskólasamfélagið á Akureyri. Þar er Orkustofnun með deild sem hefur ákveðið hlutverk með höndum og það er lítið mál að útvíkka starfsemi hennar með þeim hætti að olíuþekkingin og uppbygging á þeim rannsóknum og umsýsla með þau mál verði styrkt þar fyrir norðan.

Það geri ég ráð fyrir að verði seinni tíma mál en meginatriðið er það að Alþingi álykti að fela iðnaðarráðherra að hefja nú þegar markvissar rannsóknir á því svæði sem hér um ræðir og styðjast við þau gögn og rannsóknir sem fyrir eru, en styrkja fyrst og fremst það vísindastarf sem þarf að fara af stað svo að við getum gengið úr skugga um það með óyggjandi hætti hvaða verðmæti er að finna þarna í jörðu.