138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

upplýsingar í ökuskírteini um vilja til líffæragjafar.

175. mál
[17:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta nema kannski eins og hér kom fram, það er vert að skoða það að auglýsa ásamt með heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Ég skal skoða hvort það sé ekki eðlilegt, en líka hvernig að þessu skal staðið. Nú er unnið að verkefni á vegum allra ráðuneytanna og stjórnsýslunnar almennt um einfalt kerfi, Einfaldara Ísland , heitir það. Og varðandi þessa beiðni, hvort hún skuli undirrituð einmitt eins og segir í þessari mánaðargömlu reglugerð eða hvort við getum gert þetta öðruvísi, skulum við skoða það. Grundvallaratriðið er að þetta þarf að vera öruggt og gott og sannarlega væri best ef hægt væri að finna til örugga og góða leið, að hægt væri að gera þetta á netinu en jafnframt uppfylla öll skilyrði og lögin sem ég vitnaði í áðan sem heita lög um líffæragjafa.