138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni mjög viðeigandi og nauðsynlega spurningu.

Í inngangi að þingsályktunartillögunni segir m.a.:

„Skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs.“

Það er ekkert hlaupið að því að hrista fram úr erminni plan B og menn mundu að sjálfsögðu ekki hringja í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða fulltrúa hans á morgun og segja þeim að fara heim, eða ég vona ekki. Það er eitthvað sem þarf einfaldlega að gera að vel yfirveguðu ráði, það þarf að leggja málið niður fyrir sér. Eins og ég tæpti aðeins á áðan eru útflutningsatvinnuvegirnir í miklum blóma, gjaldeyrir er að koma í miklum mæli til landsins. Við stöndum ekki frammi fyrir þeirri gjaldeyrisþurrð sem við gerðum þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom og greiðslumiðlunarkerfi innan lands og á milli landa er komið í lag þannig að slíkar aðstæður eru allt öðruvísi.

Það er spurning hvaða áhrif það mundi hafa á lánshæfi eða lánamöguleika Íslendinga erlendis ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn færi úr landi. Staðan í dag er einfaldlega sú að við fáum ekki lán erlendis vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er misbeitt þannig að vera hans hér breytir í sjálfu sér engu um lánamöguleika Íslands því hann einfaldlega neitar að afgreiða íslenska prógrammið. Þannig að það er spurning hverju það mundi breyta. Að vísu þarf að efla trúverðugleika íslenska stjórnkerfisins betur áður en sjóðnum verður vísað úr landi eða áður en aðstoð hans verður afþökkuð en menn þurfa að gera það að vel ígrunduðu máli og þessi tillaga kannski leggur það til að það verði hugsað svolítið um það fyrst með hvaða hætti er hægt að losna við þá.