138. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2010.

mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

287. mál
[18:33]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisumræða sem hér fer fram um þessa þingsályktunartillögu. Hér talaði þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, og lýsti yfir stuðningi sínum við tillöguna. Ég skildi að ég held ræðu hans, enda var hún kannski ekki flókin. Öllu flóknari var ræða hv. þm. Illuga Gunnarssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem ég fylgdist með af athygli, en ég er hjartanlega sammála hv. þm. Illuga Gunnarssyni að það er skaði að ekki skuli vera nokkur úr stjórnarliðinu viðstaddur umræðuna en mér finnst það líka dæmigert fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr að hún er falleg og vel sköpuð að flestu leyti en því miður vantar alveg á hana eyrun. Spurning mín til hv. þingmanns er sú að ég biðst afsökunar á skilningsleysi mínu en mig langar að vita hvort þingmaðurinn og þeir sem á hans áhrifasvæði eru styðja þessa þingsályktunartillögu eða ekki.